föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skipið vekur athygli Rússa

Guðjón Guðmundsson
15. janúar 2020 kl. 16:00

Nýr Páll Jónsson er lagður af stað heim til Grindavíkur. Aðsend mynd

Nýr Páll Jónsson væntanlegur heim eftir komandi helgi.

Páll Jónsson GK, nýtt línuskip Vísis hf. í Grindavík sem er smíðað í Póllandi eftir hönnun íslenska skipahönnunar- og ráðgjafafyrirtækisins Navis, er væntanlegur til Íslands eftir nokkra daga, en skipið lagði af stað heim í gær. Skipið hefur þegar vakið eftirtekt erlendra sem innlendra útgerða. Rússnesk útgerð með höfuðstöðvar í Múrmansk er meðal þeirra sem hafa verið í viðræðum við Navis.

Páll Jónsson leysir af hólmi eldra skip með sama nafni og verður tilbúið til að halda á veiðar strax og það kemur á Íslandsmið. Skipið er sérhannað til línuveiða, 45 metra langt og 10,5 metrar að breidd. Þrjú þilför eru á því og er það búið Caterpillar aðalvél. Skipið tekur um 420 kör í lest og eru fjórtán eins manns klefar í því. Samið var um smíði skipsins síðla árs 2017 og átti smíðinni að ljúka um mitt síðasta árs. Tafir hafa orðið á verkinu sem nú sér fyrir endann á.

Hjörtur Emilsson, framkvæmdastjóri og eigandi Navis, var viðstaddur þegar skipinu var gefið nafn fyrir jól. Hann segir að það hafa vakið talsverða eftirtekt og fyrirtækinu borist allmargar fyrirspurnir.

Aðlaga hönnunina

„Við erum að fá fyrirspurnir víða að. Við höfum verið í viðræðum við rússneska útgerð sem sýnt hefur hönnuninni mikinn áhuga. Við erum að aðlaga teikningarnar fyrir minniháttar breytingar sem myndi henta þeim. Þeir hafa að vissu leyti aðrar hugmyndir um fyrirkomulag og við höfum verið að vinna að því. Það er ekki kominn á samningur en þetta er enn á viðræðustigi. Þessi tiltekna útgerð hefur gert út línuveiðiskip. Rússar hafa verið að leggja aukna áherslu á meðferð aflans og aukinn ferskleika og viðhorfið hefur verið að breytast þar í landi.“

Navis kom á tengslum við rússnesku útgerðina fyrir um það bil þremur árum og hafa þeir fylgst með smíði Páls Jónssonar í Póllandi.

Hjörtur segir að nýr Páll Jónsson geti hentað fleirum en íslenskum útgerðum. Í skipinu séu ekki byltingarkenndar nýjungar en það komi vel út í prófunum, sé fallegt skip og vönduð smíði af hálfu pólsku skipasmíðastöðvarinnar. Þetta séu líklega þær þættir sem hafi vakið áhuga erlendra útgerða.

Aðbúnaður hinn besti

„Þetta er hefðbundið línuskip. Eigendur þess vildu ekki brunnskip eða lyftu eins og er í Stormi HF,“ segir Hjörtur. Hann segir allan aðbúnað í skipinu mun betri en þekkist í flestum línuskipum í íslenska flotanum. Þriðja þilfarið sé einnig yfirbyggt sem sé ekki á þeim línuskipum sem Vísir hefur látið endurbyggja. Eins manns klefar séu fyrir alla og aðbúnaður betri en þekkst hefur. Þessir þættir hafi einnig höfðað til rússnesku útgerðarinnar.

„Mér sýnist þeim vera full alvara en málið skýrist væntanlega betur á næstu dögum eða vikum. Svona mál er samt aldrei í höfn fyrr en gengið hefur verið frá samningum. En áhuginn er klárlega fyrir hendi.“