föstudagur, 23. júlí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skipta út 50 ára trébát fyrir Trefjabát

Guðjón Guðmundsson
15. júlí 2021 kl. 07:00

Báturinn er hinn glæsilegasti. Aðsend mynd

Útgerðarfélagið Nygrunn AS í Lofoten í Noregi fékk nýverið afhentan nýjan yfirbyggðan Cleopatra 50 netabát frá Bátasmiðjunni Trefjum í Hafnarfirði.

Eigendur Nygrunn AS eru bræðurnir Ørjan og Ketil Sandnes. Þeir hafa gert út eikarbátinn Nygrunn frá Hattvika í Vestvågøy frá því á tíunda áratug síðustu aldar og báturinn hefur verið í eigu fjölskyldu þeirra bræðra frá hann var smíðaður 1971. Nú hafa þeir skipt honum út fyrir nýjan, tæplega 15 metra langan trefjabát fyrir Trefjum í Hafnarfirði.

Fiskeribladet fjallar um þá bræður og bátinn í sinni útgáfu. Þar segir að nýsmíðin, sem kostaði nærri 15 milljónir NOK, tæpar 216 milljónir ÍSK, hafi gerbreytt daglegri vinnu þeirra bræðra til hins betra.

Hattvik á Vestvågøy er í hringiðu ferðamannaaðdráttaraflsins Lófóten og fiskveiða- og fiskiðnaðarsamfélagsins á eyjunum þar í kring. Nýi Cleopatra báturinn kom með flutningaskipi frá Íslandi í byrjun júlí og hafði afhending hans dregist talsvert vegna ytri aðstæðna. Í Hattvik verður settur í hann búnaður í dekk og ýmsar stillingar og smávægilegur frágangur var framundan hjá þeim bræðrum.

Annar sams konar á Vestur-Noreg

Ørjan segir við Fiskeribladet að báturinn líti vel út. Það verði spennandi að prófa hann og sjá hvernig hann hegðar sér úti á sjó. Hann segir að þeir hafi lengi ætla að endurnýja og kom til greina að kaupa notaðan bát. Þá hafi böndin borist að Trefjum á Íslandi sem reyndist hin besta lausn. Hann segir að hefði báturinn verið smíðaður í Noregi hefðu kaupverðið orðið allt annað og hærra.

Í frásögn blaðsins segir að þeir hafi fengið Trefjar til að hækka brúarhúsið um 45 cm frá staðalstærðum og nú séu Trefjar þegar hafnar smíði á sams konar bát sem fer til Vestur-Noregs.

Ketill segir að stóra breytingin verði sú að vinnan verði mun léttari, ekki síst vinna á dekki. Minna handafli þurfi að beita til að koma fiskinum í lestina og gæði og meðhöndlun aflans batni til muna.

Þrátt fyrir að vera hálfum metri styttri en gamli eikarbáturinn er mun meira pláss og rými í nýja plastbátnum. Þannig komast um 13 tonn í lestina en ekki nema 4,5-5 tonn í eikarbátinn. Þar sem báturinn er undir 15 metrum skiptir hann um flokk og fær heimild til strandveiða sem bátum yfir 15 metrum er óheimil.

Aðalvél bátsins er af gerðinni Doosan 4V222 800hö (22 l), tengd frístandandi ZF 665 V-gír. Tvær rafstöðvar eru um borð af gerðinni Scam frá Ásafli. Báturinn er útbúinn siglingatækjum af gerðinni JRC, Simrad og Olex frá Noregi. Báturinn er einnig útbúin með vökvadrifnum hliðarskrúfum að framan og aftan sem tengdar eru sjálfstýringu bátsins.

Nygrunn er útbúinn til netaveiða.  Netabúnaður og vinnslubúnaður á dekki kemur frá Noregi. Annar búnaður á dekki er frá Stálorku. Í bátnum er ARG250 stöðugleikabúnaður

Björgunarbátar og annar öryggisbúnaður bátsins kemur frá Viking. Rými er fyrir allt að 43 stk af 460 lítra körum í lest.  Í bátnum er upphituð stakkageymsla.  Stór borðsalur er í brúnni.  Svefnpláss er fyrir sex í lúkar í þremur klefum, auk góðrar eldunaraðstöðu. Báturinn er útbúinn til lengri útiveru ef þarf og aðbúnaður um borð fyrir áhöfn í takt við það.