laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skólakrakkar bjarga verðmætum

5. febrúar 2013 kl. 13:01

Síld

Moka upp síldinni í Kolgrafarfirði.

 

Um hundrað manns, þar af nærri 50 nemendur grunnskólans í Grundarfirði og kennarar, eru nú í fjöru Kolgrafafjarðar að moka dauðri síld upp í kör, að því er fram kemur á vef RÚV.

Þegar síldin er komin í körin er hún flutt með lyftara í flutningabíl sem flytur hana til Grindavíkur. Þar verður hún notuð í minkafóður sem ætlunin er að senda til Danmerkur. Þá hafa ýmsir komið í fjöruna í dag til þess að ná sér í síld, meðal annars hrossabændur sem nota hana í fóður og einnig smábátasjómenn sem nota síldina í beitu. Hjónin Bjarni Sigurbjörnsson og Guðrún Lilja Arnórsdóttir, bændur á Eiði, bjóða hópnum upp á kakó og kanilsnúða, segir í frétt RÚV. 

Á vef Skessuhorns segir að bráðabirgðaniðurstöður Hafrannssóknastofnunar eftir rannsóknir á síldardauðanum í Kolgrafafirði í gær séu þær að nánast engin nýdauð síld er á botninum í firðinum. Hins vegar sé ekki hægt að áætla hversu margir fiskar hafi drepist í þessari annarri hrinu síldardauða síðasta föstudag fyrr en öll gögn sem safnað var í gær hafa verið skoðuð til hlítar.

„Þetta eru góðar fréttir,“ segir Björn Steinar Pálmason bæjarstjóri í Grundarfirði í samtali við Skessuhorn. „Þetta virðist allt saman vera í grynningunum við Eiði sem gefur okkur vonir um að síldardauðinn nú sé ekki af sama magni og í desember.“