sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skortur á fagmenntuðum farinn að há iðnfyrirtækjum

Guðjón Guðmundsson
13. október 2018 kl. 08:00

Sérhæfðir suðumenn eru eftirsóttur starfskraftur.

Blásið verði til samstillt átaks um kynningu á kostum iðnáms.

Mikill skortur er á blikksmiðum, vélvirkjum, plötusmiðum og rennismiðum og skortur á sérmenntuðu vinnuafli er farið að há mörgum iðntæknifyrirtækjum. Yngsti sveinninn í annarri blikksmiðjunni á Akureyri er á sextugsaldri. Atvinnurekendur segja að samstillt átak iðnaðarins, menntastofnana og stjórnvalda þurfi til þess að vekja áhuga ungs fólks á iðngreinanámi. Launaskrið hefur átt sér stað innan þessara greina sem rekja má til eftirspurnarinnar.

Guðmundur Hannesson, einn eigenda Kælismiðjunnar Frosts, segir töluverða vöntun á blikksmiðum, plötusmiðum, rennismiðum og vélvirkjum. Sama eigi við víðast hvar í iðngeiranum. Það vanti tugi ef ekki hundruði menntaðra blikksmiða, plötusmiða og vélvirkja til starfa í landinu. Auk iðntæknifyrirtækjanna vantar starfsmenn með þessa menntun til slippa, stálsmiðja og fyrirtækja sem eru í verkefnum fyrir álverin og virkjanir í landinu.

Til margra ára hafa aldrei verið færri en tveir lærlingar á samningi hjá Frost á sama tíma. En allt hafa þetta verið nemendur í vélstjórn. Ásókn sé í það nám sem sé af hinu góða en á móti komi er ásókn í nám í blikksmíði, plötusmíði eða vélvirkjun mjög ábótavant.

Flestir velja vélstjórn

„Vélstjórn er talsvert mikið nám sem gefur mikla möguleika. Þeir sem hafa lært vélstjórn eru skrefi frá því að verða líka rafvirkjar. Stór hluti þeirra sem læra vélstjórn bæta við sig einni önn og ljúka þannig einnig rafvirkjanámi. Menn með þessa menntun eiga möguleika á störfum í kæliiðnaðinum, við vélstjórn á sjó eða virkjunum eða unnið á rafmagnsverkstæðum ásamt vélstjórnarvöktun og vöktun í verksmiðjum og frystihúsum. Atvinnumöguleikarnir eru því margir og heillar námið því marga,“ segir Guðmundur.

Vélstjórnarnámið tekur fimm ár en blikksmíði, plötusmíði og vélvirkjun er hægt að ljúka á þremur árum. Guðmundur segir marga telja að störfum sem tengist þessum síðarnefndu þremur greinum fylgi óhreinindi og vosbúð. Það sé þó ekki alls kostar rétt. Blikksmíði er að öllu jöfnu mjög þrifaleg og oftar en ekki innivinna, hann nefnir sem dæmi að smíði á nýjum vinnslum, eins og til dæmis hjá Skaganum 3X, sé þrifaleg vinna sem fari fram við góðar aðstæður. Ryðfrí efni sem verið sé að smíða úr kalla á þrifalegt umhverfi.

„Þetta er í raun krefjandi og skemmtilegt starf leggi menn sig fram í starfi. Menn eru að taka þátt í þróun á vinnslulínum og fylgja þeim eftir alla leið. Oft verða óvæntar uppákomur í slíkri vinnu sem kalla á nýjar lausnir og að því leyti er vinnan líka spennandi. Það er því sem næst listgrein að vera sérhæfður suðumaður, svo ég taki dæmi. Það eru miklar kröfur gerðar til suðumanna og þeir þurfa að standast suðuréttindi hjá flokkunarfélagi. Á tveggja ára fresti gangast þeir undir próf og svo er vinna þeirra auk þess tekin út á sex mánaða fresti. Í öllum suðuverkefnum hjá okkur í Frost eru suðurnar myndaðar til að tryggja gæðin. Það er því gríðarlegt eftirlit með suðunni og góðir suðumenn verða því að hafa mikinn metnað fyrir sínu starfi,“ segir Guðmundur.

Bjarga sér með erlendu vinnuafli

Að jafnaði hafa um 53 sótt um nám hjá málmiðnaðardeild Verkmenntaskólans á Akureyri síðastliðin fimm ár en fyrir þessa haustönn lágu fyrir 43 umsóknir. Þar af sóttu 24 um nám í vélstjórn, 14 í bifvélavirkjun og einn í stálsmíði. Engar umsóknir bárust um nám í blikksmíði, rennismíði og vélvirkjun. Þannig hefur þetta verið mörg undanfarin ár og nú vilja menn sjá breytingar á þessu. Stóru iðntæknifyrirtækin hafa bjargað sér með ráðningu á erlendu vinnuafli. Nóg framboð er af reyndum suðumönnum, svo dæmi sé tekið, hjá starfsmannaleigunum og öðru sérhæfðu iðnfólki.

„Ókosturinn er sá fyrirtækin ná ekki að byggja upp þessa sérhæfingu því þetta eru starfsmenn sem koma og fara. En við þurfum á leigustarfsmönnum að halda því eðli rekstrarins er miklir toppar í verkefnum og síðan lægðir. Við gætum því ekki haft á launaskrá allt árið allan þann fjölda sem við þurfum á að halda þegar topparnir eru. Starfsemi af okkar tagi væri ógerningur ef við gætum ekki ráðið til okkar starfsmenn til tímabundinna starfa,“ segir Guðmundur.

Hann segir að bitist sé um þá iðnaðarmenn sem eru á lausu og þetta hafi leitt af sér launaskrið. Önnur dekkri hlið á þessu sé sú að fyrirtækin neyðast til þess að ráða ófaglært fólk til þessara starfa. Afleiðing þessa er lægra menntastig og minni fagþekking innan fyrirtækjanna.

Þarf að markaðssetja námið

Guðmundur segir að markaðssetja þurfi þetta nám eins og verið væri að markaðssetja hverja aðra vöru. Það þurfi að selja unga fólkinu að það geti verið góður kostur að mennta sig í þessum greinum. Allt of lítið hefur verið gert til að markaðssetja námið. Nú þurfi samstillt átak stéttarfélaganna, menntamálaráðuneytisins, Samtök atvinnulífsins og fyrirtækin í landinu sem hafa hagsmuni að verja. Það þurfi að fara inn í skólana og kynna iðngreinarnar þar með vel undirbúnu efni.

„Á kynningardögum í grunnskólunum koma fulltrúar framhaldsskólanna og kynna námsleiðir. Fulltrúar iðnaðarins þurfa einnig að fara í skólana og kynna sínar námsleiðir. Menn þurfa að safna vopnum sínum því árangurinn hefur verið lítill.“

Bæði Frost og Slippurinn á Akureyri ásamt Samherja hafa stutt Verkmennaskólann á Akureyri með peningaframlögum og kaupum á  margvíslegum tækjabúnaði. En stuðningur af þessu tagi hafi engin áhrif á hugarfar nemandans.

„Skólaárið er rétt byrjað og við breytum engu núna en verum tilbúin næsta vor. Gerum kynningarefni sem er grunnskólanemendum á lokaári sýnilegt til dæmis á heimasíðu skólanna. Förum með kynningarefnið inn í bekkina í grunnskólunum í vor og kynnum þetta nám fyrir nemendunum. Það þarf að markaðssetja þessar iðngreinar eigi eitthvað að breytast.“