sunnudagur, 23. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skoskar útgerðir fá 4,5 milljarða króna í olíustyrki og fleira

10. september 2008 kl. 09:52

Skoskar útgerðir fá 4,5 milljarða króna (29 milljónir punda) til að byrja með í styrki. Þar af nemur olíustyrkurinn um 4,1 milljarði króna (26 milljónum punda). 

Vakin er athygli á þessu í frétt á vef LÍÚ og vísað til ummæla sem höfð eru eftir skoska dreifbýlis- og umhverfisráðherrans Richard Lochhead í sjávarútvegsblaðinu  Fishing News International.

Ráðherrann upplýsir þar að skosk stjórnvöld muni gera allt sem í þeirra valdi standi til að hjálpa útgerðunum. Jafnframt kvartar hann undan því að breska ríkisstjórnin komi enn ekki að þessum aðgerðum skoskra stjórnvalda. Hann lofar þó áframhaldandi þrýstingi á bresk stjórnvöld.

Áætlanir skoskra stjórnvalda til þriggja ára gera jafnframt ráð fyrir frekari aðgerðum til þess að bæta nýtingu á olíu í skoska fiskiskipaflotanum, endurskoða reglugerðarverkið í sjávarútvegi með það að markmiði að gera það notendavænt, stuðla að hagkvæmari innkaupum á olíu, leita leiða til þess að koma  í  veg fyrir brotkast á afla, kanna nákvæmlega meðal ólíkra útgerðarforma hvernig draga megi úr olíukostnaði og hefja viðræður við sveitarstjórnir og fulltrúa atvinnuvegarins þannig að tryggt sé að aðgerðirnar beinist þangað sem þeirra er þörf og rannsaka stöðu einstakra starfsgreina í sjávarútveginum.

LÍÚ  vekur athygli á því að á sama tíma og stjórnvöld bregðast við aðsteðjandi þrengingum í nágrannalöndunum býr íslenskur sjávarútvegur við það að þurfa einn atvinnuvega að greiða sérstakan auðlindaskatt.