miðvikudagur, 1. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skoski flotinn aldrei minni

19. september 2011 kl. 09:55

Fiskibátur við Skotland.

Skipum og bátum fækkaði um 250 milli áranna 2009 og 2010

Skoski fiskveiðiflotinn hefur aldrei verið minni en á síðasta ári. Skipum og bátum fækkaði um 250 milli áranna 2009 og 2010, að því er fram kemur á vef Norges Sildesalgslag. Skoski flotinn telur 2.150 báta. Þar af eru 1.485 bátar 10 metrar og undir. Helmingur af skoska flotanum er meira en 20 ára gamall.

Í úthafsflotanum eru ástæðan fyrir fækkuninni skipulagsbreytingar og sú staðreynd að skip geta nýtt veiðiheimildir annarra báta sem liggja bundnir við bryggju. Sjómönnum fækkaði líka um 4% á síðasta ári. Nú eru 5.218 sjómenn í Skotlandi.

Árið 2010 lækkaði aflaverðmæti skoska flotans jafnframt í fyrsta sinn frá árinu 2001. Minna aflaverðmæti uppsjávarfisks, einkum makríls, er aðalástæðan en 17% samdráttur varð í þessari grein milli áranna  2009 og 2010.

Heildaraflaverðmæti skoskra skipa var 435 milljónir pund árið 2010 (um 80 miljarðar ISK). Þar af skilaði uppsjávarfiskurinn 129 milljónum punda (24 milljörðum ISK).  Makríll er verðmætasta fisktegundin í skoskum fiskveiðum. Aflaverðmæti makríls var 113 milljónir punda í fyrra ( 21 milljarður ISK).