þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skotland: Fleiri dregnir fyrir dóm í stórfelldu svikamáli við makrílveiðar

5. október 2010 kl. 14:29

Tveir skoskir fiskimenn viðurkenndu fyrir rétti í Edinborg nú í vikunni að hafa gefið falskar upplýsingar um landandir á fiski að verðmæti 7 milljónir GBP, eða 1,2 milljarðar ISK. 

Hér er um að ræða skipstjóra og meðeigendur að uppsjávarskipinu Enterprise sem skráð er í Fraserburgh. Þeir lönduðu makríl og síld framhjá vigt á Hjaltlandseyjum á árunum 2002-2005. Fyrirtækið Shetland Catch Ltd. tók við aflanum og forsvarsmenn þess hafa þegar viðurkennt að hafa aðstoðað við glæpinn.

Þetta mál er hluti af miklu stærra máli sem talið er vera eitt umfangsmesta svikamál í allri fiskveiðisögu Skotlands. Sex aðrir skipstjórar og forsvarsmenn í skoskum uppsjávarveiðum og vinnslu hlutu dóm í ágúst síðastliðnum vegna samskonar brota, eins og fram hefur komið í Fiskifréttum. Í heild er talið að ólöglegum afla í makríl og síld að verðmæti 22 milljónum GBP, tæpum 4 milljörðum ISK, hafi verið landað á Hjaltlandseyjum.

Málið er litið alvarlegum augum ekki síst vegna þess að það leiddi til mikillar umframveiði á makríl. Í hópi þeirra sem hlotið hafa dóm eru forsvarsmenn í uppsjávariðnaði í Skotlandi; og sömu menn sem nú gagnrýna Íslendinga fyrir “óábyrgar” makrílveiðar.