mánudagur, 24. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skotland: Leyfi gefin út til að skjóta 1.100 seli árið 2012

6. febrúar 2012 kl. 14:00

Selaverndarsamtök vilja banna selveiðar algerlega

Selveiðar Skota hafa minnkað verulega en selaverndarsamtök segja ekki nóg að gert og vilja að selveiðar verði algerlega bannaðar, að því er fram kemur á vefnum fishupdate.com.

Skosk stjórnvöld upplýstu nýlega að um 360 selir hefðu verið skotnir við Skotland á fyrstu níu mánuðum ársins 2011 samkvæmt sérstökum veiðireglum sem kynntar voru í upphafi ársins. Á árinu 2011 voru 68 selveiðileyfi gefin út sem heimiluðu veiðar á allt 1.300 selum. Selaverndarsamtök segja að opinberar tölur séu ekki réttar. Að minnsta kosti 500 selir hafi verið drepnir á fyrstu níu mánuðum ársins 2011.

Á árinu 2012 hafa verið gefin út 58 selveiðileyfi og skjóta má að hámarki 1.100 seli.

Selaverndarsamtökin áætla að milli 3.500 og 5 þúsund selir hafi verið skotnir við Skotlandi áður en nýju veiðireglurnar voru teknar upp. Samtökin fagna því að tekist hafi að draga úr seladrápi en segja þó ekki nóg að gert. Þau muni því halda baráttu sinni áfram þar til allar selveiðar verði bannaðar.