föstudagur, 30. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skötuselurinn hörfar suður á ný

Guðsteinn Bjarnason
16. maí 2020 kl. 09:00

Útbreiðsla skötusels er hægt og bítandi að færast til fyrra horfs, þegar hann var bundinn við sunnanvert landið. Aðsend mynd

Hafrannsóknastofnun fylgist með viðbrögðum norðlægra og suðlægra tegunda í hafinu.

Í stofnmælingu botnfiska í febrúar og mars, kom í ljós að útbreiðsla skötusels er aftur farin að líkjast því sem var fyrir aldamót þegar stofninn var lítill og bundinn við sunnanvert landið.

„Breyting á útbreiðslu skötuselsins hefur gengið til baka. Með hlýnuninni kringum aldamótin varð í honum nýliðunarsprengja en síðan tók fyrir það alveg árið 2008. Við erum eiginlega hætt að fá hann núna fyrir vestan og norðan þannig að hann er hrokkinn í sama farið og áður,“ segir Jón Sólmundsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun.

„Aftur á móti helst hlutfall ýsunnar hátt fyrir norðan eins og það hefur verið síðan það hlýnaði,“ segir Jón. Í greinargerð Hafrannsóknastofnunar segir að mælingin í ár staðfesti „að 2018 árgangur ýsu er lélegur en árgangurinn frá 2019 mælist mjög stór eða stærsti 1 árs árgangur ýsu frá árinu 2004.“

Jón segir breytingar á hitastigi sjávar við botn hér við land hafa verið mestar á árunum upp úr 1996 og alveg til 2003 eða jafnvel lengur, til 2005.

„Þá hlýnaði mikið hérna víðast og ekki síst fyrir norðan, en síðan þá hefur áfram verið hlýtt án þess að botnhiti hafi hækkað meira.“

Vegna þessara breytinga á ástandi sjávar fylgist Hafrannsóknastofnun sérstaklega með bæði norðlægum og suðlægum tegundum fiska, en þær tóku sumar hverjar að fikra sig norður á bóginn þegar hlýnaði. Magn ýmissa suðlægra tegunda jókst við sunnanvert landið og aðrar færðu sig norður með Vesturlandi og á grunnslóðina fyrir norðan land. Á sama tíma hefur fækkað í stofnum margra norðlægra kaldsjávartegunda og að einhverju leyti hafa þær fært sig frá landinu.

Hvað suðlægu hlýsjávartegundirnar varðar segir Jón það svolítið misjafnt eftir tegundum hvort þeim hafi haldið áfram að fjölga hér við land.

„Hjá þeim mörgum virðist aukningin vera að ganga til baka,“ segir hann. „Þær koma sterkar inn svona 2003 til 2005 en síðan hafa þær margar verið að gefa eftir aftur. Litla brosma og trjónuhali virðist vera að fara niður aftur og silfurkóð líka. Það kom mikil sprengja í fjölda silfurkóðs en svo hvarf það að mestu aftur. Aðrar hafa samt náð að festa sig í sessi eins og svartgóman sem er enn á uppleið.“

Norðlægu kaldsjávartegundirnar, t.d. áttstrendingur og ýmsar tegundir mjóra tóku að gefa nokkuð eftir upp úr 1996 og hafa haldist lágar síðan. Fjöldi ískóðs og grálúðu hefur þó sveiflast á tímabilinu en lítið hefur sést af ískóði síðan 2010.

Fiskifréttir hafa áður greint frá helstu niðurstöðum stofnmælingarinnar hvað varðar þorskinn, en Jón segir þorskstofninn vera þokkalega haldinn þótt vísitalan hafi nú gengið niður nokkur ár í röð.