sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skrá nákvæmlega notkun veiðarfæra

24. júlí 2018 kl. 10:50

Mynd/Trackwell

Frumgerð Optigear - kerfi sem skráir beitingu veiðarfæra og umhverfisaðstæður - hefur verið í prófunum um borð í einum af nýju ísfiskstogurum HB Granda.

Undanfarið hefur tæknifyrirtækið Trackwell unnið að verkefni í samvinnu við Naust Marine og fleiri aðila. Um er að ræða fyrsta kerfi sinnar tegundar, sem ætlað er að auka hagkvæmni við togveiðar með bættu aðgengi að upplýsingum um beitingu veiðarfæra og umhverfisaðstæður.

Frumgerð Optigear hefur verið í prófunum um borð í einum af nýju ísfiskstogurum HB Granda, þar sem safnað er rauntímaupplýsingum frá togvindukerfi, veiðarfæranemum, umhverfisskynjurum og afladagbók í sameiginlegan gagnagrunn.

Frá þessu segir í frétt á heimasíðu Trackwell.

Þar segir að skipstjórinn fær greinargott yfirlit um notkun veiðarfæra og aðgengi að upplýsingum um fyrri veiðiferðir. Þannig má sjá nákvæmlega hvernig veiðarfærum var beitt á veiðisvæðum sem skiluðu góðum afla.

Fyrir hvert kast er sjálfkrafa skráð hvenær troll fer út, hlerum sleppt, tog hefst, hvenær híft er og poki losaður. Allar upplýsingar um togátak, víralengd, dýpi og afstöðu hlera, ásamt umhverfisþáttum og staðsetningum eru skráðar. Gögnin eru tekin saman og send í land þar sem útgerðir fá upplýsingar í rauntíma um úthald, helstu þætti og frávik. Með leyfi útgerða, gefst veiðarfæraframleiðendum og rannsóknaraðilum kostur á að nýta gögnin við framþróun búnaðar.

Stefnt er að því að ljúka prófunum frumgerðar í haust og í framhaldi mun lausnin verða kynnt fyrir útgerðum togskipa.