miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Á skrapi á Gula teppinu og Sláturhúsinu

13. ágúst 2020 kl. 15:00

Fiskveiðiárinu er að ljúka og því þarf að leita uppi ýmsar tegundir sem ekki er sótt í alla jafna. Þá gengur á ýmsu, að sögn skipstjórans á Bergey VE.

Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði í Vestmannaeyjum í gær og Bergey VE landaði þar í dag. Vestmannaey var með fullfermi af ýsu, þorski og karfa en afli Bergeyjar var um 60 tonn af ýmsum tegundum. 

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Ragnar Waage Pálmason, skipstjóra á Bergey og spurði út í veiðiferðina. 

„Þetta var sannkallaður skraptúr hjá okkur en við vorum að reyna við tegundir sem eftir er að veiða á kvótaárinu. Þetta þarf gjarnan að gera þegar sér fyrir endann á kvótaárinu. Við byrjuðum á Pétursey í leit að sólkola en þar var lítið að hafa. Þá var farið á Ingólfshöfðann og þar fékkst ýsa. Síðan var haldið á Gula teppið sunnan við Tangaflakið og þar var verið í skrapi. Í lokin komum við svo við í Sláturhúsinu í von um að fá skarkola en árangurinn varð lítill. Í restina voru tekin þrjú hol við Ingólfshöfðann og þar fékkst blandaður afli; þorskur, koli og steinbítur. Það gengur á ýmsu í skraptúrum sem þessum,“ segir Ragnar.