laugardagur, 6. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skref inn í framtíðina með nýrri tækni

Guðjón Guðmundsson
6. mars 2020 kl. 14:00

Gísli hafnarstjóri tók að sjálfsögðu á móti Magna. Mynd/Gunnlaugur Rögnvaldsson

Magni, öflugasti dráttarbátur landsins, kominn

Nýr dráttarbátur Faxaflóahafna, Magni, kom til Reykjavíkurhafnar í lok febrúarmánaðar. Báturinn sem er margfalt öflugari en fyrirrennarar hans, er eðlilegt skref vegna sístækkandi skipa sem fara um hafnir landsins.

„Þarna er tekið skref inn í framtíðina með nýrri tækni. Magni er stærri dráttarbátur en nokkru sinni hefur verið keyptur til landsins. En honum fylgir líka meiri þjálfun áhafnar og auðvitað meira öryggi og hæfni til að sinna margvíslegum verkefnum,“ segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.

Þær breytingar hafa orðið á skipakomum til Faxaflóahafna að fjöldi skipa hefur nokkurn veginn staðið í stað á árunum 2012-2019 en séu þau talin í brúttótonnum hefur talan liðlega tvöfaldast. Þetta þýðir að mun stærri skip eru að koma til hafnar. Þar er annars vegar um að ræða stór farþegaskip og Gísli bendir á  að innan tíðar verði tekin í notkun ný kynslóð flutningaskipa frá og með næsta vori á vegum Eimskips og Royal Arctic Line.

6.772 hestafla vél

Samið var um smíði bátsins við Damen Shipyards í Hollandi en báturinn var smíðaður í skipasmíðastöð fyrirtækisins í Víetnam. Siglingin til Íslands frá Víetnam er rúmar 10.000 sjómílur og áhöfn á vegum Damen sigldi bátnum til Reykjavíkur. Á næstu dögum og vikum mun báturinn verða tekinn út og gengið frá öllum pappírum, auk þess sem honum verður komið á íslenskt flagg. Í framhaldinu tekur við þjálfun starfsmanna Faxaflóahafna á bátinn.

Nýji Magni er er 32 metra langur, 12 metra breiður og með tvær 2.025kW aðalvélar, samanlagt 6.772 hestöfl. Togkraftur dráttarbátsins er 85 tonn áfram og 84 aftur á bak en það er samanlagður togkraftur allra núverandi dráttarbáta Faxaflóahafna, en þeir eru fjórir talsins. Á næstu dögum og vikum verður Jötunn auglýstur til sölu þannig að stefnt er að því að fjórir dráttarbátar verði í flota Faxaflóahafna.

Ný skrúfutækni

Nýr Magni býr yfir nýjustu tækni á mörgum sviðum þar á meðal svokallaðri azimuth skrúfutækni. Ekki er í bátnum hefðbundið stýri heldur er honum stýrt með skrúfunum sem býður upp á mun liprari stýringu en á hefðbundnum bátum. Kaupum á Magna fylgdi námskeið fyrir skipstjórnendur og hefur hluti þeirra þegar sótt námskeið erlendis í stjórnun á bátnum.

Af Gísla sjálfum er það að frétta að hann hyggst láta af störfum hjá Faxaflóahöfnum næsta haust.

„Ég hef verið í þessum daglega ati í 35 ár. Mig langar síðustu fimm ár starfsævinnar geta einbeitt mér að færri verkefnum. Ég hef líka sagt að endurnýjun sé af hinu góða fyrir höfnina. Það kemur inn nýtt blóð með ferskar hugmyndir. En ég verð eflaust áfram tengdur höfninni varðandi einhverja hluti eitthvað áfram,“ segir Gísli.

Fréttin birtist fyrst í Fiskifréttum 5. mars