sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skugganefju rekur á land sunnan Hafnarfjarðar

1. desember 2008 kl. 11:58

Fyrir nokkru bárust Hafrannsóknastofnuninni fregnir um rekinn hval við Hvaleyrarholt sunnan Hafnafjarðar.

Við nánari skoðun reyndist um skugganefju að ræða sem telst til svínhvala. Dýrið var 5,2 m löng, ókynþroska kýr og á henni voru nýleg sár eftir sníkjufisk eins og títt er með hvali sem hingað koma frá suðlægari slóðum.

Skugganefjur virðast aðallega halda sig á rúmsjó og eru sjaldséðar á grunnsævi. Tegundin finnst bæði á norður- og suðurhveli jarðar og nær útbreiðsla hennar frá kaldtempruðum svæðum að miðbaug.

Í Norður-Atlantshafi rekur skugganefju reglulega upp að ströndum Bretlandseyja, meginlands Mið- og Suður-Evrópu og að austurströnd Bandaríkjanna. Tegundin er hins vegar fáséð hér við land og hvalrekinn við Hafnarfjörð er sá sjöundi sem fregnir hafa borist um hérlendis. Þar af eru fimm frá síðustu 12 árum.

Líkt og nú hafa fyrri rekar allir verið á sunnanverðu landinu. Ísland virðist því liggja nálægt norðurmörkum útbreiðslusvæðis tegundarinnar.

Skugganefja er yfirleitt ein á ferð eða í litlum hópum. Hún kafar í allt að 30 mínútur og þegar hún kemur upp á yfirborðið blæs hún lágum, dreifðum og lítt áberandi blæstri sem beinist fram á við. Skugganefjur eru þar að auki hlédrægar og virðast forðast báta. Af þessum sökum sést mun sjaldnar til tegundarinnar en eðlilegt mætti teljast miðað við fjölda strandaðra dýra.

Enn eru miklar eyður í skilningi á líffræði tegundarinnar og því mikilvægt að safna upplýsingum frá dýrum sem rekur að landi. Smokkfiskar virðast vera aðaluppistaðan í fæðunni en ýmsar fisktegundir hafa einnig greinst í magainnihaldi, einkum á djúpsævi.

Upplýsingar frá Kyrrahafi benda til að bæði kynin nái þar kynþroska um 5,5 m lengd en lengstar geta skugganefjur orðið um 7 m. Óvíst er um kynþroskaaldur og lítið er vitað um lífslíkur skugganefju. Elsti tarfur, sem athugaður hefur verið, var með 36 vaxtarlög í tönnum og elsta kýr með 30 vaxtarlög.

Sé gengið út frá að hvert vaxtarlag endurspegli eins árs vöxt má áætla að fjöldi þeirra jafngildi aldri dýranna. Burðar- og mökunartími tegundarinnar er ekki þekktur. Þaðan af síður lengd meðgöngu eða umönnunar kálfa. Út frá lengdarmælingum á stærstu fóstrum og minnstu kálfum í Kyrrahafi er áætlað að lengd við burð sé um 2,7 m.

Frá þessu er skýrt á vef Hafró, sjá fleiri myndir HÉR