mánudagur, 17. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skuldir sjávarútvegsins 2,4% af heildarskuldum íslenskra fyrirtækja

27. maí 2010 kl. 16:02

  Skuldir íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja voru 543 milljarðar króna í lok ársins 2008. Heildarskuldir íslenskra fyrirtækja námu á sama tíma samtals 22.675 milljörðum króna að því er kemur fram í Tíund, riti ríkisskattstjóra. Samkvæmt þessu voru skuldir sjávarútvegsfyrirtækja því 2,4% af heildarskuldum íslenskra fyrirtækja í árslok 2008.

Frá þessu er greint á vef LÍÚ. Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ segir þar að þessar tölur ekki koma á óvart. „Við höfum aldrei dregið dul á það að skuldir sjávarútvegsins eru umtalsverðar en umræðan um atvinnugreinina hefur verið á villigötum allt of lengi. Þessar tölur eru algjör andstæða þeirrar dökku myndar sem dregin hefur verið upp af skuldastöðu sjávarútvegsins undanfarin misseri," segir Adolf.

Sjávarútvegsfyrirtæki koma áberandi best út úr yfirliti um stöðu útlána Íslandsbanka í erindi sem Birna Einarsdóttir bankastjóri flutti á opnum fundi Samkeppniseftirlitsins í síðustu viku. Þannig eru 82% lána til sjávarútvegsfyrirtækja í skilum, 10% í endurskipulagningu, 8% á athugunarlista og vanskil engin. Þegar horft er til allra útlána bankans til fyrirtækja eru 46% í skilum, 41% í endurskipulagningu, 9% á athugunarlista og 4% í vanskilum, segir ennfremur á vef LÍÚ.