laugardagur, 19. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

,,Skuttogarar framtíðarinnar“

22. september 2011 kl. 10:53

Tölvuteikning af togurunum sem Aker Seafoods lætur smíða.

Aker Seafoods semur um smíði þriggja skuttogara fyrir 16,5 milljarða ISK

Norski sjávarútvegsrisinn Aker Seafoods hefur ráðist í 16,5 milljarða íslenskra króna fjárfestingu í þremur nýtísku skuttogurum sem leysa eiga eldri skip af hólmi. Skrifað var undir samning um smíðina síðastliðinni mánudag við STX OSV AS skipasmíðastöðina. Togararnir verða afhentir á árunum 2013 og 2014.

Togararnir verða með nýtt skrokklag, sparneytnar vélar og aukna veiðigetu, að því er fram kemur í frétt frá Aker Seafoods. Hver togari verður 69,8 metrar að lengd og 15,6 metrar á breidd með vinnslubúnaði um borð til að hausa, slægja og frysta fisk. Þótt hér sé um frystitogara að ræða verður einnig mögulegt að stunda ísfiskveiðar og landa ferskum fiski til vinnslu í landi. Um borð verður fiskimjölsverksmiðja til að bræða allan afskurð.

Með nýja skrokklaginu verður mótstaðan í sjónum minni. Þróað stjórnkerfi verður í togurunum til að hámarka orkunýtingu, þeir verða búnir tveimur aðalvélum, tveimur skrúfum og í þeim verða rafmangsvindur. Við hönnun skipanna hefur verið leitast við að uppfylla ströng skilyrði varðandi umhverfismál. ,,Þetta eru skuttogarar framtíðarinnar,“ segir Olav Holst-Dyrnes, framkvæmdastjóri útgerðarhluta Aker Seafoods í Noregi.