mánudagur, 24. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skýjalausnir fyrir sjávarútveginn

Guðjón Guðmundsson
6. nóvember 2019 kl. 13:20

Davíð Hauksson hjá Metadata. Aðsend mynd.

Fyrirtækið Metadata var stofnað í lok árs 2017 af fimm aðilum með áratuga reynslu úr upplýsingatækni og alþjóðlegu viðskiptaumhverfi, aðstoðar fyrirtæki við að safna gögnum úr ólíkum kerfum, vinna upplýsingar úr þeim og tryggja rétt aðgengi að þeim.

Upplýsingafyrirtækið Metadata hefur frá stofnun sett fókus á lausnir fyrir sjávarútveginn sem leiða til tímasparnaðar, bætts upplýsingaöryggis og betri yfirsýnar stjórnenda. Lausnir Metadata eru í notkun hjá fyrirtækjum á öllum endum sjávarútvegs, frá útgerð til söluskrifstofa.

Metadata sem var stofnað í lok árs 2017 af fimm aðilum með áratuga reynslu úr upplýsingatækni og alþjóðlegu viðskiptaumhverfi, aðstoðar fyrirtæki við að safna gögnum úr ólíkum kerfum, vinna upplýsingar úr þeim og tryggja rétt aðgengi að þeim. Markmiðið er aðgengi að upplýsingum, helst í rauntíma svo taka megi skjótar og gagnlegar ákvarðanir.

Davíð Hauksson hjá Metadata, segir að „skýið“ sé í raun ekki annað en tölvur sem eru aðgengilegar hvar og hvenær sem er, óháð staðsetningu. Skýjalausnir snúast því ekki síst um bætt aðgengi að gögnum.

Söfnun og vinnsla upplýsinga úr mörgum kerfum

Davíð segir að mörg fyrirtæki í sjávarútvegi standi í dag frammi fyrir áskorun að búa til upplýsingar úr gögnum mismunandi kerfa og að Metadata sé komið með góða reynslu og þekkingu í þessari vinnu fyrir fyrirtæki. Sem dæmi þá sé í nútíma fiskvinnslu notast við flokkara og flæðilínur sem skila af sér gögnum um afköst og nýtingu, t.d. í Innova kerfi frá Marel, sem hægt sé að tengja saman við gögn úr tímaskráningarkerfum.

„Þarna safnast saman gögn og verkefnið er að vinna úr þeim gagnlegar upplýsingar um samspil afkasta og greiddra vinnustunda,“ útskýrir Davíð.

Ef skoða á verðmætin í vinnslunni þarf að bæta við upplýsingum úr þriðja kerfinu, sölu- og birgðakerfi eins og WiseFish sem er algengt meðal fyrirtækja í sjávaraútvegi. „Við höfum aðstoðað fyrirtæki, eins og t.a.m. Ísfélag Vestmannaeyja, að draga saman þessi gögn svo hægt sé að fylgjast með í rauntíma hvernig kostnaður safnast saman, hver afköstin eru og hve margir eru stimplaðir inn svo hægt sé að mæla áhrif fjölda starfsmanna á afköstin. Með þessu móti má einnig sjá hve mikið af hráefni má setja inn í vinnsluna og hve langan tíma framleiðsluferlið tekur“, segir Davíð.

Enginn innsláttur undir tímapressu

Metadata hefur einnig unnið að verkefni fyrir Iceland Seafood sem lýtur að aðfangakeðjunni frá framleiðanda til neytenda og bætt flæðis og aukinna gæða vöruupplýsinga í útflutningi. Áhugi á þessum málaflokki varð til þegar Metadata kom að verkefninu Vitinn, fyrir SFS og Matís þar sem til stóð að innleiða nýjan hugtakaramma og bætta greiningu á útflutningi sjávarafurða.

Vinnan fyrir Iceland Seafood felst í því að nýta þær upplýsingar sem verða til í upplýsingakerfi hjá framleiðanda. Í stað tölvupóstsamskipta þar sem upplýsingar í pdf og excel skjölum fara á milli aðila með tilheyrandi innslætti og mögulegu tapi á gæðum gagna, þá er upplýsingum streymt milli kerfa með viðkomu í skýinu. Þetta tryggir að full gæði gagna skila sér milli aðila, engum óþarfa tíma er eytt í vinnu við innslátt undir tímapressu og gegnsæi er í samskiptunum.  Þetta er gert með rafrænu samskiptatorgi sem kallast mPort, sem heldur utan um ólík skjöl í skýinu og eru aðgengileg í tölvu eða snjallsíma. Kerfið var prufukeyrt í byrjun árs með góðum árangri og í gangi er frekari innleiðingarvinna hjá framleiðendum Iceland Seafood, að sögn Davíðs. Metadata hefur bæði þróað vefþjónustur sem NAV viðskiptakerfi eins og WiseFish geta tengst en einnig er í boði sjálfvirkni sem lærir að lesa pdf skjöl og breytir í gögn sem gerir virknina óháða skráningarkerfum framleiðandans.

Ný „Milla“

Þriðja verkefnið sem Metadata vinnur að og tengist sjávarútvegi, er aflaskráning í frystitogurum. Verkefnið byggir á „Millunni“ sem Gunnar H. Sigurðsson, þá stýrimaður hjá ÚA og nú starfsmaður Fiskistofu, þróaði að eigin frumkvæði á seinni hluta níunda áratugarins. Millan sem byggir á Excel hefur ekki verið uppfærð síðan 2004 þegar Gunnar hætti á sjó en hann tók vel í að vera „guðfaðir“ verkefnisins þegar Metadata leitaði eftir því og mun veita mikilvæga ráðgjöf við þróun nýju Millunnar. Skráning á unnum afla um borð, frávik frá útgefnum nýtingarstuðlum og upplýsingagjöf til útgerðar, söluaðila og Fiskistofu er meðal virkni kerfisins. „Þetta eru áhugaverðar upplýsingar fyrir útgerðirnar en jafnframt skipta þær miklu máli fyrir söluaðila, eins og Iceland Seafood, sem geta fylgst með framgangi veiðanna, skipulagt og undirbúið sölu og flutning talsvert fram í tímann,“ bætir Davíð við.

Verkefni Metadata er að koma Millunni í nýja útgáfu, með vefviðmóti skráningar um borð, skýjalausnum við söfnun gagna og snjalltækjum við miðlun. Útgerð, áhöfn og söluaðilar, geta fylgst með úr tölvu eða snjalltæki í rauntíma en dreifing og miðlun þessara gagna er stýrt niður á notendur af útgerðinni sem á gögnin.