sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skylt að sleppa lífvænlegri lúðu

21. desember 2011 kl. 09:13

Lúðuveiðar.

Sjávarútvegsráðherra setur reglugerð um algjört bann við lúðuveiðum.

Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra hefur skrifað undir reglugerð um bann við lúðuveiðum. Áður höfðu beinar lúðuveiðar með haukalóð verið bannaðar með reglugerð sem gefin var út síðastliðið vor. Með almennu banni á lúðuveiðum eru sjómenn skyldaðir til að sleppa í sjóinn aftur lífvænlegri lúðu en aflaverðmæti þeirrar lúðu sem kemur að landi rennur til rannsókna. Líkt og bann við veiðum með haukalóð tekur bann við almennum lúðuveiðum gildi um áramót.

Friðun lúðunnar er tilkomin vegna tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar sem hefur um langt árabil bent á slæmt ástand stofnsins. Gögn stofnunarinnar benda til að lúðustofninn hafi um langt skeið farið minnkandi. Heildarlúðuafli á Íslandsmiðum fór upp í allt að 8.000 tonn í byrjun 20. aldar en veiðin var þá nær eingöngu stunduð af erlendum skipum. Fyrstu árin eftir stækkun efnahagslögsögunnar í 200 sjómílur var lúðuaflinn að jafnaði um 2.000 tonn en hefur farið minnkandi og var árið 1997 kominn niður í rúm 500 tonn.

Lúðuveiðar hafa aukist lítillega á allra síðustu árum vegna aukinnar sóknar í stofninn með línuveiðum. Þar er annars vegar um að ræða aukna sókn í línuveiðar á blálöngu og löngu þar sem lúða kemur sem meðafli og hins vegar beina sókn í lúðu með haukalóð. Að öðru leyti hefur lúðuafli farið minnkandi sem meðafli.

Sjá nánar á vef sjávarútvegsráðuneytisins.