þriðjudagur, 24. september 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Skyndilokanir stundum gagnlegar

30. ágúst 2019 kl. 14:23

Þorskungviði

Gagnast þegar veiðihlutfall er hátt en síður þegar það er hóflegt eins og nú er í flestum bolfisktegundum.

Hafrannsóknastofnun segir skyndilokanir gagnlegar til verndar smáfiski þegar veiðihlutfall er hátt. Hins vegar hafi skyndilokanir takmarkað gildi sé veiðihlutfall hóflegt líkt og nú er í flestum bolfisktegundum.

Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn frá Ingu Sæland. DV greinir frá.

Ráðherra segir Hafrannsóknastofnun þó ekki telja ráðlegt „að fella öll mörk niður og hverfa frá lokunum svæða ef smár fiskur veiðist. Skynsamlegt sé að hafa aðhald og stöðva veiðar á svæðum ef óhóflega er veitt af ungviði. Stofnunin hefur lagt til að breyta viðmiðunarmörkum, þ.e. rýmka þau, fyrir þorsk, ýsu og ufsa, en stofnunin telur ekki þörf á að breyta viðmiðunarmörkum í öðrum tegundum að svo stöddu.“

Fyrirspurn Ingu var lögð fram á þingi 20. júní síðastliðinn en svar ráðherra er birt 29. ágúst.

„Að mati Hafrannsóknastofnunar er væntur ávinningur svæðalokana að koma í veg fyrir skaðlegar veiðar, þ.e. veiðar á ungviði, smáfiski, smárækju og smáhumri, en einnig til að draga úr líklegu brottkasti,“ segir í svarinu.

Greint er frá fjölda og lengd bæði skyndilokana og reglugerðarlokana undanfarin 10 ár, auk þess sem reynt er að leggja mat á árlegan eftirlits- og stjórnunarkostnað Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar vegna þeirra.