mánudagur, 17. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

„Skynsamlegast er að halda kerfinu að mestu óbreyttu“

16. september 2011 kl. 08:02

Fiskveiðar

Staðan aðeins erfið hjá 5 af 20-25 stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum

„Þessi hörðu viðbrögð sem litið hafa dagsins ljós að undanförnu við stóra kvótafrumvarpinu svokallaða koma mér ekkert sérstaklega á óvart enda eru allar umsagnir nánast á sama veg, varað er við neikvæðum afleiðingum þess,“ segir Stefán B. Gunnlaugsson lektor við Háskólann á Akureyri, að því er fram kemur á vef LÍÚ.

Stefán var starfsmaður sérfræðihóps sem sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra skipaði til þess að fara yfir hagræn áhrif frumvarps um breytingar á stjórn fiskveiða. Hann flutti erindi á málstofu í viðskiptafræði við háskólann, þar sem sérstaklega var farið yfir áhrif frumvarpsins á rekstur og efnahag íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Stefán hefur skoðað ársreikninga 20 af 25 stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins.

„Almennt má segja að reksturinn sé góður, staðan hjá fimm fyrirtækjum er vissulega erfið, en nokkur fyrirtæki standa að sama skapi mjög vel að vígi fjárhagslega. Afkoman árið 2009 var góð og fyrirtækin eru greinilega að greiða niður skuldir. Árið 2010 var líklega enn betra, reikningar þess árs hafa ekki verið gerðir opinberir. Ég fæ sem sagt ekki annað séð en að rekstur stærstu fyrirtækjanna sé yfirleitt í góðu lagi.“

Því fyrr því betra
„Skynsamlegast er að halda núverandi kerfi að mestu óbreyttu að mínu mati. Neikvæð umræða hefur greinilega dregið kjarkinn úr stjórnendum fyrirtækja í greininni. Sú óvissa sem ríkir um framtíðina leiðir eðlilega til þess að þeir óttast að taka ákvarðanir um fjárfestingar, þannig að því fyrr sem málið verður leyst, því betra.“