þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Slæða upp plast með trolli

6. júlí 2017 kl. 10:14

Nýstárlegt tilraunaverkefni í Noregi

Norska fyrirtækið Clear Ocean AS ætlar í sérstaka útgerð í sumar en þó ekki til að veiða fisk heldur plast úr sjónum. Fyrirtækið ætlar að strengja troll á milli tveggja skipa og draga það meðfram ströndum og slæða þannig upp úr sjónum plastúrgang.

Plastúrgangur er orðinn alvarlegt vandamál í heimsins höfum. Í síðasta tölublaði Fiskifrétta var sagt frá því að strandir á afskekktum svæðum á norðurslóðum séu orðnar mjög mengaðar og talið er að golfstraumurinn beri plast þangað sunnan að.

Þótt aðferð norska fyrirtækisins hljómi einföld í útfærslu hefur hún aldrei verið reynd áður. Stig Randal, framkvæmdastjóri Clear Ocean, segir að forgangsatriði verði framkvæma tilraunina með þeim hætti að hún hafi ekki skaðlega áhrif á lífríki sjávar, svo sem fisk og  svif.

Aldrei verið reynt áður

Hafrannsóknastofnun Noregs mun hafa eftirlit með tilraunaverkefninu og tryggja að enginn skaði hljótist af í sjávarvistkerfinu en svo stórtæk söfnun á plasti úr hafinu hefur aldrei verið framkvæmd fyrr.

Annar mikilvægur þáttur í tilraunaverkefninu er að leggja mat á hve mikið plast er í raun og veru á grunnsævi Noregs.

Þótt Noregur sé fjarri iðnvæddu meginlandi Evrópu og Bretlandseyjum stafar sjávarlífríkinu í Noregi hætta af plastrusli. Plastagnir finnast í auknum mæli í fiskum, fuglum og öðrum lífverum. Deyjandi hvalur sem fannst skammt undan landi í Noregi reyndist vera með 30 plastpoka í iðrum sér. Þá hefur rannsókn leitt í ljós að 3% af þorskafla Norðmanna hefur í sér plast af einu eða öðru tagi.

Clear Ocean er með höfuðstöðvar í Bremnes sunnan Bergen og er í nánu samstarfi við Hafrannsóknastofnun Noregs. Fyrirtækið hefur unnið að þessu verkefni frá árinu 2014. Hafrannsóknastofnun Noregs hyggst verja 35 milljónum norskra króna, um 430 milljónum íslenskra króna, í baráttu gegn mengun hafsins.