miðvikudagur, 11. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Allur eldur slokknaður um borð í Fernöndu

4. nóvember 2013 kl. 11:21

Fernanda meðan enn lagði reyk frá skipinu. (Mynd/ LHG).

Ekki ákveðið hvert farið verður með skipið.

Allur eldur er slokknaður um borð í Fernöndu sem er í vari undan Reykjanesi. Slökkviliðsmenn fóru um borð í skipið í morgun. Kvoðu verður dælt niður í vélarrúm skipsins í dag til að kæla það. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV.

Varðskipið Þór dró flutningaskipið Fernöndu í var í gærkvöld vestur undan Reykjanesskaga. Skipin eru núna skammt undan landi og í morgun fóru slökkviliðsmenn sem verið hafa um borð í Þór alla helgina, um borð í Fernöndu. Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerða hjá Landhelgisgæslunni, segir í samtali við RÚV að allur eldur sé kulnaður í skipinu.

„Þeir urðu ekki varir við neinn eld, engan reyk og ekki svo mikinn hita, þannig að ljóst er að eldurinn er kulnaður í skipinu, en það er ljóst að það hefur verið mikill hiti, miðað við hvað stál var sveigt og fleira,“ segir Ásgrímur.

Ásgrímur segir að nú eigi að dæla kvoðu niður í vélarrúm skipsins til að kæla það og tryggja að öll hugsanleg glóð verði kæfð. Þegar tryggt er að skipið sé orðið kalt verður það dregið til hafnar og olíu dælt af því. Ekki hefur verið ákveðið hvert siglt verður með skipið.