sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Á slöngubát út í Breiðafjarðareyjar

Guðjón Guðmundsson
24. apríl 2019 kl. 12:30

Kristján Lár Gunnarsson. Aðsend mynd

Kristján Captain gerir út á ferðamennina

Einn af þeim sem rekur haftengda ferðaþjónustu í Stykkishólmi er Kristján Lár Gunnarsson, Kristján Captain, eins og hann kallar fyrirtækið sitt. Talsverð ásókn erlendra og innlendra ferðamanna er í ferðir hjá honum á 12 manna slöngubát út í eyjarnar í Breiðafirði. Kristján tekur þó aldrei fleiri en sex í hverja ferð og vill að viðskiptavinir hafi rúmt um sig meðan á ferðinni stendur.

„Ég fæ flesta mína viðskiptavini í gegnum ferðaskrifstofur sem er mun betra fyrirkomulag en ég hafði á þessu áður. Þetta verður þriðja sumarið mitt frá því ég fékk leyfi til þess að sigla með ferðamenn. Ég nota í ferðirnar rúmlega  sex metra langan slöngubát af gerðinni Ribeye s650 sem er nýr síðan síðasta haust. Ég er ekki að gera út á adrenalínsupplifun, heldur förum við rólega yfir,“ segir Kristján.

Allt í rólegheitum

Kristján er alinn upp við siglingar á þessu svæði.

„Ég legg þetta þannig upp að siglt er í rólegheitum og áherslan er lögð á það að gaumgæfa náttúruna og segja sögur. Hefðbundin ferð tekur um eina klukkustund en svo vilja sumir lengri ferðir og þær er hægt að sérsníða að óskum hvers og eins. Ég fer yfirleitt aldrei sömu leið.  Ekki er föst áætlun á ferðunum heldur eru þetta flest fyrirframbókaðar ferðir í gegnum ferðaskrifstofu og bara lagt í hann þegar menn eru klárir.“

Kristján segir að sjaldan sjáist hvalur í þessum ferðum, en þó komi fyrir að það sjáist í höfrunga  og hnísur. Það sem fyrir augu ber er fuglalíf og þá er lundinn alltaf vinsæll, svo er töluvert um haförn á svæðinu enda stór hluti stofnsins við Ísland sem verpir við Breiðafjörðinn.

"Landslagið er margbreytilegt, engin eyjanna er eins, og stuðlaberg af margvíslegu tagi vekur athygli. Báturinn kemst mjög nálægt eyjunum og ferðamenn geta jafnvel klappað berginu, og svo eru það að sjálfsögðu straumarnir en hér getur munurinn á flóði og fjöru verið um 4-5 metrar svo oft gengur mikið á í þröngum sundum og umhverfis eyjarnar."

Mikil náttúruupplifun

„Ferðamenn upplifa þetta mjög sterkt og skiptir þá engu máli hvort farþegarnir séu ungir Íslendingar eða sjötugir Ísraelar. Ferðirnar eru mikil náttúruupplifun. Í fyrra voru Bandaríkjamenn stærsti einstaki hópurinn í þessum ferðum. Oft eru þetta fjölskyldur, fimm eða sex saman í einum bíl, sem hafa pantað hjá  mér.“

Kristján stundar aðra vinnu meðfram þessu en hann vinnur við pípulagnir og sinnir eyjunum á sumrin, en fjölskylda hans hefur tengsl í nokkrar af þeim óteljandi sem eru á Breiðafirði. Mikill fjöldi ferðamanna hefur jafnan lagt leið sína til Stykkishólms og nú hefur þeim fjölgað á öllu norðanverðu Snæfellsnesi. Hann horfir björtum augum til sumarsins þótt verkefnastaðan sé ekki ennþá komin í ljós.