þriðjudagur, 20. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Smábátar á makrílveiðum

Guðsteinn Bjarnason
2. ágúst 2019 kl. 07:00

Gloppótt makrílveiði smábáta í byrjun vertíðar en verðið er mun hærra en í fyrra.

Makrílvertíðin hófst fyrr að þessu sinni en undanfarin ár. Smábátasjómenn láta sitt ekki þar eftir liggja og hófu veiðar um svipað leyti og stærri skipin.

Einn þeirra er Axel Helgason, formaður Landssambands smábátasjómanna. Hann var á grásleppuveiðum í júní en fór á makrílinn um miðjan júlí. Hann segir veiðina hafa verið upp og niður, eins og oft er á makrílveiðum.

„Það hefur veiðst ágætlega hjá sumum, en þetta er mjög blettótt eins og er svo oft á þessum árstíma,“ sagði hann þegar Fiskifréttir slógu á þráðinn til hans á þriðjudag.

„Veiðin er gloppótt ennþá, hann dettur niður í svolítinn tíma en svo kemur góður afli á milli. Jákvæði vinkillinn er samt að verðið frá því í fyrra er 20-30 prósent hærra.“

Þegar lengra líður á vertíðina muni svo rætast úr veiðinni, stöðugleikinn verði meiri.

Frá Keflavík til Snæfellsness
Framan af var Axel á veiðum við Keflavík, nánast inni í höfninni og segir að lítið hafi þýtt að færa sig fjær landi. Þar hafi makríllinn ekki látið sjá sig.

„Við forðumst samt höfnina sjálfa. Því miður eru þessi sveitarfélög mörg þessi smærri ekki með skolpmálin sín enn í lagi.“

Í byrjun vikunnar flutti Axel sig um set og sigldi vestur að Snæfellsnesi þar sem hann frétti að veiðin væri orðin góð. Þar eru nokkrir bátar komnir á makríl.

„Annars eru tiltölulega fáir byrjaðir, og það er að hluta til út af því að það eru ekkert allar vinnslur komnar á fullt sem ætla að taka við þessu.“

Hinir eru flestir að bíða, segir Axel, en bætir því við að þeir sem enn eru á grásleppuveiðum í innanverðum Breiðafirði séu að moka grásleppunni upp þar.

„Það hefur sjaldan veiðst eins vel af grásleppunni seinni hluta sumarsins eins og núna.“

Potturinn læstur
Úthlutunarreglum við makrílveiðar var breytt í sumar og því fylgir að 4.000 tonna pottur er tekinn frá fyrir smærri báta.

Smábátasjómenn sumir hverjir gagnrýnt að greiða þurfi tvöfalt gjald fyrir makrílinn úr þessum potti, bæði veiðigjald og jafnhátt leigugjald. Axel tekur þó ekki að öllu leyti undir það.

„Við erum að borga þrjár krónur fyrir fisk sem við seljum á 100 krónur. En vissulega er ekki verið að gæta jafnræðis, að með vel rúmlega helminginn af heimildunum skulum við þurfa að greiða annað gjald en hinir.“

Hitt er verra, að mati Axels, að Fiskistofa hafi tekið sér frest til tíunda ágúst til að koma með endanlega úthlutun í makrílnum.

„Þetta er bagalegt fyrir okkur því nú eru veiðarnar hafnar en þeir sem vilja fara á makríl geta ekki leigt til sín heimildir eða keypt heimildir fyrr en 10 ágúst, og þá eru liðnar þrjár vikur frá því vertíðin hófst. Það er algjörlega galið.“