mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Smábátaveiðar gefnar frjálsar í Noregi

3. janúar 2014 kl. 12:46

Frá Noregi.

Eigendur stærri báta ósáttir við að það gildi ekki um þá líka.

Norskir smábátasjómenn fagna því í upphafi árs að þriggja áratuga tímabili með kvótum og veiðitakmörkunum er lokið. Veiðar eru nú frjálsar fyrir báta allt að 11 metrum að lengd. Þorskgengd er nú mikil í Barentshafi en óvíst er hvaða áhrif frjálsar veiðar hafa á fiskverð. Frá þessu var skýrt í hádegisfréttum RÚV.  

Sjómenn fréttu fyrst að á nýju ári yrðu engar tilkynningar um lokanir lesnar í útvarpi. Síðan var tilkynnt að allt væri opið. Það er að segja að enginn kvóti væri lengur í gildi fyrir báta allt að 11 metra að lengd. Hér eftir gilti það eitt að allir með veiðileyfi á minnstu bátunum gætu farið út og veitt eins mikið og þeim sýndist. 

Fréttaritari RÚV í Noregi segir að það hafi lengi verið krafa smábátamanna að veiðar þeirrar yrðu gefnar frjálsar og nú í upphafi vertíðar 2014 sé nær þriggja áratuga tímabili kvóta lokið. Þessu hefur einkum verið fagnað í nyrstu þorpum landsins þar sem útgerð hefur átt mjög undir högg að sækja. Eigendur stærri báta eru hins vegar ósáttir við að þetta gildir ekki fyrir alla. 

Ástæðan fyrir að kvótinn er felldur niður er að þorskgengd í Barentshafi hefur aukist mjög síðustu ár og heildarþorskkvóti kominn í um milljón tonn. Veiðin takmarkast í reynd af því hvort kaupendur vilja fiskinn. Því má búast við að verð á þorski lækki með frjálsum veiðum, segir í frétt RÚV.