föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Smábátum fækkar um 400 á fjórum árum

5. september 2009 kl. 16:21

Smábátum sem stunda atvinnuveiðar og eru aðilar að Landssambandi smábátaeigenda (LS) fækkaði milli áranna 2004 og 2008 úr 1.063 í 657. Fækkunin nemur 406 bátum eða um 38%.

Að sögn Arnar Pálssonar framkvæmdastjóra LS stafar mesta fækkunin af því að sóknardagakerfi smábáta var afnumið en síðast var róið samkvæmt því árið 2004. Veiðirétti sóknardagabátanna var breytt í krókaaflamark. Margir eigendur þessara báta kusu þá að hætta í útgerð og selja veiðiheimildirnar.

Einnig stafar fækkunin af því að nýir og stærri bátar hafa komið inn í krókaaflamarkskerfið í undanförnum árum og eigendur þeirra hafa keypt kvóta af minni bátum sem síðan hafa verið teknir úr rekstri.

,,Ég á reyndar von á því að talan yfir smábáta á atvinnuveiðum verði nokkru hærri á árinu 2009 en hún var á árinu 2008. Það stafar annars vegar af nýja strandveiðikerfinu sem hleypt var af stokkunum í sumar og hins vegar af fjölgun grásleppubáta á þessu ári en góðar markaðshorfur fyrir grásleppuhrogn juku áhugann á þeim veiðum,” sagði Örn.