þriðjudagur, 2. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Smíða fjóra 30 tonna línubáta

Guðjón Guðmundsson
14. mars 2020 kl. 09:00

Unnið að plöstun hjá Víkingbátum. Mynd/gugu

Víkingbátar með mörg járn í eldinum

Víkingbátar hafa hafið undirbúning að smíði fjögurra 30 tonna báta af Víking gerð og hafa verið undirritaðir samningar um sölu á tveimur þeirra til GPG Seafood á Húsavík og Sigluness á Þingeyri. Um er að ræða nýja útfærslu af Víking, Víkingur 1380. Fullbúinn bátur af þessari gerð kostar á bilinu 300-350 milljónir.

Víkingbátar smíðar báta af gerðunum Víkingur og Sómi í bátasmiðju á Kistumel skammt frá Leirvog. Nokkrir bátar eru nú í smíðum og í salnum voru auk þess tveir Sómar 870, þar á meðal Svampur KÓ-7, sem Vilhjálmur Vilhjálmsson, fyrrverandi forstjóri HB Granda, hefur fest kaup á og hyggst nota á strandveiðum.

Margrét mokfiskar

Síðastliðið sumar fékk Útgerðarfélag Sandgerðis, dótturfélag Nesfisks í Garði, afhentan 13,2 metra langan, 21 tonna línubát, Margréti GK-33, sem hefur mokfiskað að undanförnu. Helgi Þór Haraldsson skipstjóri er ánægður með bátinn og ber honum söguna vel.

„Við höfum gert tvo samninga um sölu á bátum af Víkinggerð; annars vegar við GPG á Húsavík og hins vegar við Útgerðarfélagið Siglunes.  Við reiknum með því að smíða fjóra báta af þessari gerð. Búið er að selja tvo af þessum fjórum bátum og aðrir aðilar hafa sýnt þeim áhuga,“ segir Matthías. Þess má geta að Útgerðarfélagið Siglunes er í eigu Matthíasar Sveinssonar, eiganda Víkingbáta.

Matthías segir bjart framundan í bátasmíðinni og er fyrirtækið nú með mörg járn í eldinum. Báturinn sem nú er í smíðum fyrir GPG verður 13,8 metra langur, af gerðinni Víkingur 1380. Stefnt er að því að báturinn verði afhentur í mars á næsta ári og Siglunes fái sinn bát afhentan um mitt ár 2021.

Hann segir talsverða hagkvæmni felast í því að smíða fleiri en einn bát í einu af sömu gerð.

Siglunes hefur gert út balabátinn Otur II ÍS-173 og verður honum skipt út fyrir nýja Víkingbátinn sem verður með beitningarvél.

Bátar af öllum gerðum á lager

Eins og Fiskifréttir greindu frá í september 2013 keyptu Víkingbátar ehf. Sómabáta ehf. og eignuðust með kaupunum öll framleiðslumót, teikningar, vöruheiti og viðskiptasambönd Sómabáta.

Víkingbátar hafa endurnýjað öll mót fyrir Sóma og eru með fullsteypta báta í öllum mótum. Fyrirtækið á því allar gerðir báta á lager. Viðskiptavinir eiga val um að kaupa plastkláran bát og setja sjálfir í hann vél og rafbúnað. Fyrirtækið á einnig fullbúna Sóma 870 til á lager.