þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Snæfellsbær fær hæsta byggðakvótann

18. október 2013 kl. 15:20

Fiski landað í Ólafsvík. (Mynd: Alfons Finnsson).

Ráðuneytið úthlutar alls 6.824 tonnum í byggðakvóta nýs fiskveiðiárs

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur úthlutað 6.824 þorskígildistonna byggðakvóta fiskveiðiársins 2013/2014. Alls er byggðakvóta úthlutað til 32 sveitarfélaga og í þeim fengu 47 byggðarlög úthlutun.

Snæfellsbær fær hæsta byggðakvótann eða 735 tonn. Þar næst kemur Ísafjarðarbær með 424 tonn, en sá kvóti rennur annars vegar til Flateyrar (300 tonn) og hins vegar til Suðureyrar (124 tonn). Enginn kvóti fer til Ísafjarðar. 

Fjallabyggð er í þriðja sæti í þessari úthlutun með 440 tonn og Dalvíkurbyggð og Norður-Þing koma svo með 414 tonn hvort byggðarlag.

Úthlutun byggðakvótans byggir á upplýsingum frá Fiskistofu um samdrátt í botnfiskafla, botnfiskaflamarki og vinnslu botnfisks annars vegar og samdrætti í rækju- og skelvinnslu hins vegar frá fiskveiðiárinu 2003/2004 til fiskveiðiársins 2012/2013.

Hámarksúthlutun til byggðarlags er 300 þorskígildistonn og fá sex byggðarlög það hámark. Lágmarksúthlutun er 15 þorskígildistonn, eigi byggðarlag á annað borð rétt til úthlutunar, og fá fimm byggðarlög þá úthlutun.

Nánari upplýsingar um úthlutunina má sjá á vef ráðuneytisins.