miðvikudagur, 8. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Snjallsiglingakerfi sem dregur úr kostnaði

Guðjón Guðmundsson
21. febrúar 2021 kl. 09:00

Karl Birgir Björnsson og Björn Jónsson framkvæmdastjórar Hefring Marine. Mynd/Hefring

Nýsköpunarfyrirtækið Hefring ehf. var stofnað til að þróa leiðbeinandi snjallsiglingakerfi. Fyrirtækið hefur nú hafið samstarf við stórfyrirtæki eins og Garmin um þróun tæknilausna og stefnir á þróun á siglingakerfi fyrir sjálfsiglandi sjóför.

Karl Birgir Björnsson, framkvæmdastjóri Hefring, segir að ætla megi að hægt sé að ná fram 10-30% rekstrarsparnaði á ári í rekstri báta og skipa með notkun búnaðarins.

Stofnendur fyrirtækisins eru Karl Birgir, Björn Jónsson og Magnús Þór Jónsson, en þeir stofnuðu Hefring ehf. árið 2018. Karl Birgir og Björn tóku þátt í að ýta bátasmiðjunni Rafnar úr vör og þáttur í þróunarvinnunni þar var að greina slysatíðni og gera mælingar á hraðskreiðum bátum út um alla heim. Magnús hafði umsjón með þessum rannsóknum og mælingum sem prófessor við iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands en sérsvið Magnúsar er sveiflufræði. Við þessar mælingar og rannsóknir kveiknaði hugmynd hjá þremenningunum um að þróa búnað sem gæti upplýst skipstjórnarmenn í rauntíma um hreyfingar báta og skipa með það að markmiði að koma í veg fyrir slys og tjón.

Búnaðurinn sem fyrst var þróaður, og Hefring Marine siglingakerfið á síðari stigum, gengur í grundvallaratriðum út á það að verja báta og áhafnir fyrir höggum og hættulegum hreyfingum sem verða til vegna samspils bátsins, sjólags, hraða og stefnu. Það gerir búnaðurinn með því að leiðbeina skipstjóra á hvaða hraða skuli siglt miðað við sjólag framundan en líka í hvaða stefnu sé rétt að halda til að ná sama markmiði. Nafnið á búnaðinum er viðeigandi því Ægir og Rán, goð og gyðja hafsins, áttu samkvæmt norrænu goðafræðinni níu dætur. Ein þeirra, Hefring, bar nafn hinnar rísandi öldu.

60-70% minni högg

„Hugmyndin að Hefring Marine spratt upp úr þessum jarðvegi og byggist í grundvallaratriðum á því að stjórnendur báta sé upplýstir um það sjólag sem framundan er á siglingunni og hvernig best er að beita bátnum,“ segir Karl Birgir.

Upphaflega var unnið með búnað sem mældi fyrst og fremst högg á báta og sýndi notendum hversu mikil þessi högg væru. Viðfangsefnið hefur síðan þá verið áframhaldandi þróun á öflugari búnaði sem safnað getur öllum gögnum um hreyfingar báts og staðsetningu, auk gagna úr búnaði bátsins, þróun á algríma og líkönum til að vinna úr þessum gögnum í rauntíma, upplýsingaveitu fyrir veðurspár svo hægt sé að spá fyrir um framhald siglingar, og skýr og einföld framsetning fyrir notendur. Með því breyttist verkefnið úr því að þróa mæliaðferðir yfir í það að búa til leiðbeinandi upplýsingar fyrir skipstjórnendur.

  • Gerðar voru umfangsmiklar prófanir á búnaðinum sumarið 2019. Mynd/Hefring

Gerðar voru umfangsmiklar prófanir á búnaðinum sumarið 2019. Niðurstöður þeirra prófana leiddu í ljós að stjórnendur báta með Hefring Marine búnaðinn beittu þeim með öðrum hætti en stjórnendur báta sem voru án búnaðarins. Mælingar sýndu að högg sem dundu á bátum voru 60% til 70% minni þegar skipstjórnandi var meðvitaður um Hefring Marine búnaðinn.

„Þetta eitt og sér getur komið í veg fyrir tjón og jafnvel slys. Hugsanlega getur búnaðurinn leitt til lægri tryggingaiðgjalda þeirra sem hann nota, betri endingar báts og búnaðar og aukins endursöluvirðis. Við áætlum að rekstrarsparnaður af því að nota kerfið geti verið 10-30% á ári.“

Samstarf við útgerðarfélög

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins gekk í lið með Hefring árið 2019 sem hluthafi og fjármagnaði þróunina á búnaðinum. Fyrsta útgáfa hans kom á markað í apríl í fyrra og var tekið í notkun af nokkrum aðilum, m.a. Landhelgisgæslunni og Slysavarnafélaginu Landsbjörgu auk erlendra aðila, svo sem Redninsselskapet eða norska sjóbjörgunarsambandið. Gott samstarf tókst milli þessara aðila sem nýttist til þess að þróa það enn frekar. Björgunarskóli Landsbjargar hefur notað Hefring kerfi við kennslu og æfingar. Við hverja siglingu verða sjálfkrafa til skýrslur sem skrá siglingasögu bátsins og skipstjóra og í þeirra tilviki nýtast til kennslu. Einnig nýtast skýrslur Hefring til þess að greina virkni kerfisins og tengja það við áframhaldandi þróun.

„Þó nokkrar björgunarsveitir eru núna tilbúnar að taka við næstu útgáfu kerfisins frá okkur til gagnasöfnunar og prófana. Við höfum einnig unnið með útgerðarfélögum, mest með Vísi hf. í Grindavík og Skinney-Þinganes hf. á Höfn í Hornafirði og eru frumgerðir af nýja kerfinu í minni skipum þeirra, Sævík GK 757 og Vigur SF 80. Samstarfið við útgerðarfélögin sem við teljum vera leiðandi í nýsköpun í fiskveiðum og -vinnslu er okkur sem nýsköpunarfyrirtæki mjög mikilvægt. Þetta á einnig við um samstarf okkar við Landhelgisgæsluna og Slysavarnafélagið Landsbjörgu, sem hefur reynst okkur mjög dýrmætt.“

Hefring Marine kerfið er gert fyrir báta og minni skip en Karl Birgir segir að búnaðurinn verði þróaður áfram þannig að hann komi einnig til með að henta í stærri skip.

„Ennfremur hefur nú stór erlendur aðili á sviði þróunar sjálfsiglandi báta lýst yfir vilja til samstarfs við Hefring. Hagsmunir þeirra beinast ekki að öryggi áhafna því engar áhafnir eru í sjálfsiglandi sjóförum. En einmitt þess vegna er enginn um borð sem hefur tilfinningu fyrir því hvernig sjófarið hegðar sér. Það geta því orðið óhöpp sem geta valdið skemmdum á bát eða dýrum búnaði um borð. Kerfið okkar getur veitt þeim sem stýra sjálfsiglandi sjóförum úr landi mikilvægar upplýsingar um hvernig best er að haga siglingunni og í framhaldi gæti kerfið sjálft tekið ákvarðanir og upplýst stýribúnaðinn um hraða og leiðarval. Þessi stefna nýtist í þróun á kerfi fyrir hefðbundna báta, sem verður skrefið sem fyrst verður tekið áður en kerfi fyrir sjálfsiglandi báta verður tilbúið“.

Samstarf við Garmin og Google

Karl Birgir segir að þarna sé einkum um að ræða hraðskreiða báta sem nýttir eru í strandgæslu- og eftirlitsstörf.  Tækniþróunarsjóður veitti Hefring styrk í ágúst 2020 til að þróa stýribúnaðinn fyrir sjálfsiglandi báta en í styrknum felst líka mikilvæg viðurkenning sem hefur opnað á ýmiss tækifæri fyrir Hefring á erlendri grundu.  Þá veittu Siglingaráð sem er fagráð um siglingar og Samgöngustofa Hefring styrk á síðasta ári til áframhaldandi þróunar á kerfinu en sú viðurkenning er líka mikilvæg hvatning til góðra verka.

Hefring er einnig í samstarfi við erlenda bátaframleiðendur svo sem De Haas Maassluis B.V. í Hollandi með það að markmiði að búnaðurinn verði hluti af framleiðsluferli þeirra. Þetta nær meðal annars til fyrirtækja sem smíða léttabáta fyrir snekkjur og annarra sem smíða hraðbáta fyrir löggæslu og björgunarstörf.

Í nýrri útfærslu kerfisins verður það innbyggt í siglingakerfi sjófaranna og í því sambandi hefur verið tekið upp samstarf við Garmin í þessu augnmiði, einn stærsta framleiðanda GPS tækja í heiminum. Fyrirtækið hefur lýst yfir áhuga á því að setja Hefring Marine inn í siglingatæki sem það framleiðir.

„Næsta kynslóð af kerfinu sem við vinnum að núna verður með talsvert öflugari vél- og hugbúnaði en það sem við fórum af stað með í fyrra. Fyrra kerfið þurfti spjaldtölvu til að sýna viðmótið og vinna úr gögnunum en nýja kerfið getur notað skjái um borð og er með innbyggða tölvu sem keyrir gagnasöfnun, vinnslu og  tengingu við gagnaský. Auk þess höfum við þurft að skoða þörf á rauntíma gervigreindarvinnslu um borð og höfum til þess tengt okkur við Google Coral og höfum hafið með þeim gott samstarf sem mögulega getur leitt af sér sameiginlega lausn.“

Karl Birgir segir að þrjár nýjar vörur verði kynntar á þessu ári. „Fyrsta varan er sjóveður- og siglingakort sem hannað er fyrir siglingar og leiðarval. Þessi lausn var í raun hluti af heildarkerfinu en í Covid þurftum við að finna leiðir til að kynna okkur betur fyrir umheiminum og því færðum við útfærslu á þessu korti ofar í forgangsröðinni og hyggjumst bjóða upp á notkun á henni óháð vélbúnaði. Hægt verður að sækja um fría tilraunaráskrift til að skoða allar helstu sjó- og veðurspáir á hafsvæðinu í kringum Ísland á þægilegu viðmóti í vafra með siglingakorti og leiðarvali. Með leiðarvalinu verður hægt að velja AIS skipa og fá kerfið til að útbúa örugga og hagkvæma siglingaleið sem tekur mið af veðri og aðstæðum. Vörurnar sem koma svo þar á eftir verða nýjar útfærslur af búnaðinum okkar, fyrst uppfærsla á vélbúnaði og svo hugbúnaði og úrvinnslu. Hægt verður að tengja búnaðinn og kortið saman svo hægt verði að fá rauntíma gögn úr bátnum til að bæta leiðbeiningar um leið, hraða og stefnu.”

Greinin birtist upphaflega í Nýsköpunarblaði Fiskifrétta þann 18. febrúar.