laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Snjókrabbinn veldur áhyggjum

2. maí 2014 kl. 08:00

Snjókrabbi

Tífalt meira af snjókrabba en kóngakrabba í Barentshafi.

Sjávardýr sem flutt eru, óaðvitandi eða með vilja, í ný heimkynni geta valdið miklum usla á nýju búsvæðunum þegar fram í sækir. Þetta hefur sannast með kóngakrabbann sem fluttur var úr Kyrrahafi í Barentshaf upp úr miðri síðustu öld og hefur breiðst út meðfram ströndum Norður-Noregs á síðustu árum. 

Skömmu fyrir síðustu aldamót varð svo vart við aðra krabbategund í Barentshafi sem mjög hefur fjölgað sér í austanverðu hafinu, einkum við eyjuna Novaja Semlja, en er einnig farin að teygja sig víðar. Um er að ræða snjókrabba sem algengur er í norðanverðu Kyrrahafi, við austurströnd Bandaríkjanna og allt til heimskautasvæða við vesturströnd Grænlands. Ólíkt kóngakrabbanum var snjókrabbinn ekki fluttur af ásetningi í Barentshafi heldur er talið að hann hafi borist með kjölvatni skipa. 

Sérfræðingar norsku hafrannsóknastofnunarinnar vara við því að aukin útbreiðsla snjókrabba í Barentshafi kunni á endanum að hafa neikvæð áhrif á botndýralíf ið í hafinu og þar með á vöxt og viðgang þeirra sem ofar eru í vistkeðjunni eins og fiska, sjávarspendýra og ísbjarna.  Samkvæmt nýlegum rannsóknum rússneskru hafrannsóknastofnunarinnar (Pinro) er magn eða lífmassi snjókrabba í Barentshafi orðinn tíu sinnum meiri en kóngakrabba. Jafnframt samsvarar magnið helmingnum af lífmassa rækju í hafinu og einum þriðja af lífmassa þorsks. 

Ennþá finnst snjókrabbinn aðeins í rússnesku lögsögunni en óttast er að hann teygi sig inn í þá norsku og inn á Svalbarðasvæðið. Norskir vísindamenn vilja auka rannsóknir á þessum nýbúa í Barentshafi en segja engin ráð til að stöðva útbreiðslu hans.