sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Snörp frásögn af mannraunum

9. júní 2018 kl. 06:00

Einar Kárason. MYND/HAG

Stormfuglar Einars Kárasonar lýsa baráttunni fyrir lífinu í Nýfundnalandsveðrinu 1959

Stormfuglar, skáldsaga eftir Einar Kárason, lýsir einum sólarhringi í Máfinum RE þegar áhöfnin berst fyrir lífi sínu í Nýfundnalandsveðrinu svonefnda í febrúar árið 1959. Sagan byggir á sönnum atburðum og Máfurinn er þannig í raun Þorkell Máni RE. Þrjú skip sukku vegna ofviðris og ísingar, þar á meðal eitt íslenskt skip, síðutogarinn Júlí frá Reykjavík með 30 mönnum.

Einar segist hafa gengið með söguna í maganum í 30 ár en loks þegar hann kom sér niður á aðferðina til að segja hana tók það hann ekki nema 30 daga að skrifa hana.

„Ég las frásögn skipverja á Þorkeli Mána af upplifuninni og fór þá strax að hugsa um hvernig hægt væri að koma henni á bókmenntalegt form. Nóvelluformið var lausnin. Bókin er stutt, einn kafli og ekkert stopp, eins og þetta var hjá þeim. Þeir börðust við ís í þrjá sólarhringa og fengu enga pásu. Vaktirnar voru ekki kaflaskiptar og þess vegna ákvað ég að hafa þetta svona,“ segir Einar.

Reynsla af sjónum nýtt

Eftir rólegheita siglingu á miðin skall á ofsaveður. Lofthiti var mínu 14-18 gráður og sjórinn mínus tvær gráður. Ölduhæð var 15-20 metrar. Einar las allt sem hann komst yfir um Nýfundnalandsveðrið og leitaði líka í smiðju Steinar J. Lúðvíkssonar, höfundar bókaflokksins Þrautgóðir á raunastund. Einar segir að Steinar hafi reynst sér afar hjálplegur.

Persónusköpunin í bókinni byggir að vissu marki á reynslu Einars sjálfs af sjónum. Hann fór einn túr á síðutogara þegar hann var að ljúka stúdentsprófi og var einnig á frökturum og togbátum. En sagan sjálf byggist á atburðum sem gerðust um borð í Þorkeli Mána þessa örlagaríku daga.

„Þetta var gamall tappatogari og orðinn slitinn og hálfónýtur,“ segir Einar um togarann sem hann var á. „Stór hluti áhafnarinnar kom beint úr rennisteininum. Bátsmaðurinn, sem var ljóðskáld að norðan, spurði mig hvaða erindi ég ætti um borð. Ég sagði að mitt erindi væri það sama hans. Þá sagði hann mér að það hefði tekið hann fimmtán ár að drekka sig niður á þennan stað.“

Upphaflega lét Einar skipið heita Máninn í sögunni en breytti því síðar í Máfinn. En á einum stað í bókinni gleymdist að breyta þessu og þar heitir skipið Máninn. „Þetta er eina villan. En það er alltaf ein villa í hverri bók.“

Einar hefur að sjálfsögðu sökkt sér niður í allt sem tengist þessum atburðum. Hann segir að nokkru sunnar var skemmtiferðaskipið Queen Elizabeth á siglingu og lenti í veðrinu. Þá mældist 18 metra ölduhæð og fjölmargir brúargluggar brotnuðu í þessu hábyggða skipi.

Las mikið af sjóarasögum

„Þorkell Máni og Júlí voru í mjög köldum sjó og hefðu þurft að komast í hlýjari sjó vegna stöðugrar yfirísingar. Harðbakur var töluvert sunnar þar sem sjórinn var ekki jafn kaldur. Hefðu hin skipin tvö komist þangað hefðu þau getað bjargað sér. En þá hefðu þau þurft að slá undan veðri. En eins og ástandið var á þá var eini möguleikinn til að bjarga sér að sigla beint upp í veðrið í norðvestur. Þeir tommuðust því alltaf í enn kaldari sjó.“

Tungutakið í bókinni litast mjög af sjómennskunni. Það var mjög enskuskotið eins og orð eins og troll, rópur, grandari, messaseri og fleiri bera með sér. Einar lærði þetta mál á síðutogaranum og líka á togbátum sem hann var á síðar.

„Svo hafði ég gaman líka af því að stúdera þetta. Ég las mikið af sjóarasögum strax í æsku. Pabbi hafði verið mjög upptekinn af svona bókum sem ég margar ennþá. Þær hétu nöfnum eins og Brim og boðar, Um sollinn sæ, Í særótinu og svo bækur Steinars, Þrautgóðir á raunastund. Ég hafði gaman af þessum bókum og dreymdi að komast til sjós. Ég fékk svo pláss 17 ára gamall á fraktara sem hét Eldvík. Finnbogi Keld gerði hann út. Þetta var gamall fraktari sem hafði strandað á skeri við Raufarhöfn og hét þá Susan Wright. Það var dæmt ónýtt á skerinu. Kristinn í Björgun keypti það á málamyndapening og fóru norður með harðsnúnan hóp manna. Þeir skáru skipið í sundur og skildu eftir miðhluta þess sem var fastur á skerinu. Það var síðan soðið saman uppi í fjöru og dregið til Hollands. Þar var bætt í það þessi tíu metra bútur sem hafði verið skorinn úr því.“

Logskar davíðurnar

Stormfuglar er stutt og snörp frásögn. Hún er líka myndræn og því er lýst vel hvernig grannir vírar verða sverir eins og klóakrör og ísbrynja hleðst á rekkverk og davíður. Það læðist því að lesanda hvort hér sé ekki upplagt efni til að gera kvikmynd. Einar telur að það gæti orðið dýrt í framkvæmd en sagan sjálf gæti auðveldlega staðið undir heilli bíómynd.

Meðan allir á dekki börðust með ísöxum, slaghömrum og rörabútum við ísinguna stýrði skipstjóri og stýrimenn skipinu í gegnum skaflana. Vélstjórarnir dældu olíu stöðugt á milli tanka til að halda ballest.

Menn voru örmagna á líkama og sál eftir þessa þrekraun. Margir þurftu aðhlynningar við vegna kalsára. Harðsnúnir og gamalreyndir sjómenn treystu sér margir hverjir aldrei á sjó aftur. 1. vélstjórinn var kannski mesta hetjan í þeirri frásögn sem Einar hefur sett á bók. Hann logskar davíðurnar sem voru fjórar talsins þannig að þær fóru út fyrir borðstokkinn. Þetta voru stórir gálgar sem söfnuðu á sig mikilli ísingu og drógu mjög haffærni skipsins.