laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sóknarfæri felast í sameiningunni

31. desember 2013 kl. 15:00

Hrogn frá Vigni G.Jónssyni ehf.

Vignir G. Jónsson ehf. sem sameinaðist HB Granda framleiðir 1.500 tonn af hrognum á ári.

,,Ég bind miklar vonir við að sameiningin við HB Granda muni verða til þess að efla starfsemina enn frekar. Það stendur ekki annað til. Hér er öflugt fyrirtæki á sínu sviði með frábært starfsfólk en litla yfirbyggingu.  Kosturinn við að sameinast HB Granda er m.a. sá að þar er mjög öflugt söluteymi og samlegðaráhrifin munu ótvírætt gagnast þeirri starfsemi sem hér hefur verið rekin.“

Þetta segir Eiríkur Vignisson, framkvæmdastjóri Vignis G. Jónssonar hf. á Akranesi í viðtali á vef HB Granda, en nýlega var gengið frá sameiningu þessa gamalgróna fiskvinnslufyrirtækis og HB Granda.

Fyrirtækið sérhæfir sig í hrognavinnslu og nemur magn loðnuhrogna um 600 tonnum á ári, þorskhrogna um 400 tonnum og grásleppuhrogna er um 400 til 500 tonn á ári. Starfsmenn eru rúmlega 40 talsins og eru þá ótaldir skólanemendur sem oftar en ekki hlaupa undir bagga á álagstímum í vinnslunni.

,,Hér er samfelld vinnsla allt árið. Það koma vissulega ákveðnir álagstoppar. Loðnuhrognatíminn er í febrúar og mars og mestar annir hvað varðar grásleppuhrognin eru fyrir jólin. Markaðssvæðin eru mjög víða. Grásleppuhrognin fara mest til landa í Norður og Mið-Evrópu og svo erum við farin að frysta grásleppu fyrir vaxandi markað í Kína. Loðnuhrognin eru aðallega seld til Bandaríkjanna sem og á Evrópumarkað en þar er einnig okkar mikilvægasti markaður fyrir þorskhrogn,“ segir Eiríkur en í máli hans kemur fram að mest af þorskhrognavinnslunni sé svokölluð forvinnsla. Kaupendur afurðarinnar sjái svo um fullvinnslu og pökkun hver á sínu markaðssvæði.


v