laugardagur, 23. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Sóttkví ógnar fiskveiðum

Guðjón Guðmundsson
19. maí 2020 kl. 12:00

Fiskframleiðendur segja að ný reglugerð um sóttkví sé alvarleg ógn við fiskveiðitímabilið í Okhotsk-hafi við Kyrrahafsströnd Rússlands. Aðsend mynd

Miklir erfiðleikar í sjávarútvegi í Rússlandi.

Leiðandi útgerðaraðilar og fiskframleiðendur í Rússlandi biðla nú til stjórnvalda þar í landi um stuðning til að unnt verði að draga úr miklum taprekstri og gjaldþrotum vegna Covid 19 farsóttarinnar. Sagt er frá þessu í vefritinu Worldfishing.

Fiskframleiðendur segja að ný reglugerð um sóttkví sem hefur verið innleidd í Rússlandi vegna aukinnar útbreiðslu veirunnar sé alvarleg ógn við fiskveiðitímabilið í Okhotsk-hafi við Kyrrahafsströnd Rússlands þar sem allt snýst um veiðar á alaskaufsa.

Útgerðin og fiskvinnslurnar telja að reglugerðin geti valdið því að það dragi úr veiðum á alaskaufsa um allt að 250.000 tonn í magni og verðmæti sem tapist geti numið 350 milljónum dollara, rúmum 51 milljarði ÍSK.

Staðan er enn flóknari úti fyrir norðurhéruðum Rússlandi þar sem fæstir togarar fá að fara inn í erlendar hafnar til áhafnaskipta eða löndunar.

Slakað verði á viðskiptaþvingunum

Fiskvinnslan hefur nú þegar farið fram á það við stjórnvöld að slakað verði á takmörkunum á fiskinnflutningi til landsins sem settar voru á árið 2015 sem hluti af viðbrögðum við viðskiptaþvingunum vestrænna þjóða í kjölfar innlimunar Rússa á Krímskaga. Fiskvinnslan segir að bann við fiskinnflutningi hafi leitt til fiskskorts á rússneskum markaði og neytt innlenda framleiðendur til þess að hækka afurðaverð.

Hermann Zverev, formaður heildarsamtaka fiskframleiðenda í Rússlandi, VARPE, segir nauðsynlegt af aflétta banni rússneskra fiskiskipa að koma inn í eða yfirgefa efnahagslögsöguna nema á ákveðnum eftirlitsstöðvum því þetta fyrirkomulag hafi í för með sér viðbótarkostnað fyrir útgerðina sem hleypur á 14,2 milljörðum rúblna, um 28 milljörðum ÍSK,  árlega. VARPE hefur einnig farið fram á að tímafrestum vegna nýsmíði samkvæmt fjárfestingakvóta stjórnvalda verði aflétt. Samkvæmt þessu prógrammi hafa rússneskar skipasmíðastöðvar gert samninga um smíði á 43 nýjum fiskiskipum og skal smíði þeirra vera lokið 2025. Samkvæmt núgildandi lögum getur það leitt til sekta eða innköllunar á kvóta ef ekki er staðið við upphaflegan afhendingartíma.