mánudagur, 1. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Spá 7% samdrætti á næsta ári

27. nóvember 2017 kl. 15:00

Útflutt magn sjávarafurða á árinu 2016 nam tæpum 580.000 tonnum og er það um 8,2% lægra en árið 2015.

Íslandsbanki áætlar að útflutningsverðmæti sjávarafurða muni nema 210-220 milljörðum króna í ár, sem samsvarar ríflega 7% samdrætti á milli ára. Á komandi ári gerir bankinn ráð fyrir ríflega 4% aukningu útflutningsverðmætis sjávarafurða fyrir tilstilli veikari krónu, hærra heimsmarkaðsverðs og aukins kvóta. Aukningin verði öllu hóflegri árið 2019, eða tæplega 1%, gangi spá bankans eftir.

Samdráttur
Útflutt magn sjávarafurða á árinu 2016 nam tæpum 580.000 tonnum og er það um 8,2% lægra en árið 2015 og er 128.000 tonnum undir langtíma meðaltali. Þessi samdráttur í útflutningi milli ára skýrist einna helst af minni veiðum. Verðmæti útflutnings á árinu 2016 nam um 232 milljörðum króna sem er tæpum 37 milljörðum minna (14%) en á árinu 2015 miðað við verðlag ársins 2016.

Þorskur var verðmætasta útflutningstegundin á árinu 2016 og námu útflutningsverðmæti þorsks 100 milljörðum á árinu 2016. Nemur það um 43% af útflutningsverðmæti sjávarafurða.

Framlegð
Framlegð sjávarútvegsfélaga í flokki blandaðra uppsjávar- og botnfiskfélaga er hæst, eða 27%. Framlegð þessara félaga er hæst þar sem almennt kostar minna að sækja uppsjávarfisk en botnfisk og er vinnsla uppsjávarfisks einnig kostnaðarminni. Framlegð botnfiskútgerðar er 25% og framlegð botnfiskútgerðar og vinnslu er 17%.

Opinber gjöld sjávarútvegsfélaga námu um 19,1 milljörðum króna á árinu 2016 og lækkuðu um 3,9 milljarða frá fyrra ári m.v. verðlag ársins 2016. Þar munar mest á veiðigjöldum sem lækka um 1,2 ma.kr. eða 17%. Tekjuskattur sjávarútvegsfélaga til greiðslu á árinu 2016 var um 7,7 milljarðar samanborið við 9,5 milljarða árið 2015. Áætlað greitt tryggingagjald nam 5 milljörðum á árinu 2016 sem nemur um 19% lækkun.

Eldi
Útflutningsverðmæti eldisfisks árið 2016 var um 9.6 milljarðar króna samanborið við 7.1 milljarð árið 2015 á föstu verðlagi. Bandaríkin eru sem fyrr stærsti markaðurinn fyrir íslenskar eldisafurðir með um 25% af heildarverðmæti ársins 2016. Þýskaland kemur þar á eftir með um 17% og Bretland með um 13%.

Heimild: Íslandsbanki. Íslenskur sjávarútvegur 2017.