þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Spáð 15% aukningu í laxeldi á næsta ári

26. ágúst 2011 kl. 11:00

Lax

Framleiðsla Norðmanna gæti farið í 1,1 milljón tonna

Heimsframleiðsla á eldislaxi gæti aukist um 15% á árinu 2012 sem helgast aðallega af 60% aukningu í Síle, að því er fram kemur á vef IntraFish.

Á alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var nýlega um eldi á Atlantshafslaxi kom fram í einu framsöguerinda að heimsframleiðsla á næsta ári myndi ná 1,8 milljónum tonna. Aukningin milli áranna 2011 og 2012 yrði 230 þúsund tonn, eða 15%. Þess má geta að aukning milli áranna 2010 og 2011 var um 100 þúsund tonn, eða 7%. IntraFish segir að þessi spá sé í takt við áætlanir markaðsfyrirtækja.

Samkvæmt upplýsingum IntraFish er reiknað með því að vöxtur í laxeldi í Noregi á næsta ári verði 10% og framleiðslan fari í um 1,1 milljón tonna. Í Síle er spáð 60% vexti sem þýðir að framleiðslan fari úr 188 þúsund tonnum árið 2011 í 299 þúsund tonn árið 2012.

Þessar spár eru þó háðar því hvernig þróunin verður í framleiðslukostnaði við eldið og markaðsverði fyrir afurðirnar en verð á laxi hefur heldur lækkað. Því er spáð að verð á eldislaxi verði að meðaltali um 27,5 NOK (588 ISK) á kílóið á næsta ári. Spáin byggist á því að framleiðslan aukist um 12%. Aukist framleiðslan meira kann verðið að verða lægra.