fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Spáð að 300 til 400 staðir loki á næstunni

Guðjón Guðmundsson
18. janúar 2019 kl. 16:00

Sturlaugur Haraldsson, framkvæmdastjóri Norebo á Bretlandi og Bandaríkjunum.

"Það er mjög sláandi þegar tölur yfir sölu á ferskum fiski eru skoðaðar frá 1980 að sala á ferskum laxi hefur aukist um 300% en sala á ferskum hvítfiski á sama tíma dregist saman um 65%."

Blikur eru á lofti á Fish and chips markaðnum í Bretlandi vegna verðhækkunar á hvítfiski, veikingu pundsins í kjölfar Brexit og kaupmáttarrýrnunar almennings. Því er jafnvel spáð að 300-400 Fish and chips veitingastaðir loki á næstu mánuðum. Það er þó ekki nema lítill hluti þeirra 11.500 Fish and chips veitingastaða sem eru í Bretlandi.

Heildarverðmæti sjávarafurðasölunnar í Bretlandi er um átta milljarðar punda á ári, um 1.243 milljarðar ÍSK, sem skipist því sem næst jafnt milli stórverslana og fiskneyslu utan heimila, þ.e.a.s. veitingastaða og mötuneyta. Sturlaugur Haraldsson er framkvæmdastjóri Norebo í Evrópu og stýrir rekstri fyrirtækisins í Evrópu og Bandaríkjunum. Norebo er stærsta útgerðarfyrirtæki Rússlands og stærsti framleiðandi þorsks og ýsu í heiminum. Sturlaugur greindi breska markaðinn í erindi á Sjávarútvegsráðstefnunni í nóvembermánuði og kom fram í máli hans að aðeins fimm tegundir standa undir uppistöðunni af fiskframboðinu í Bretlandi, þ.e.a.s. þorskur, lax, rækja, alaskaufsi og ýsa.

Sturlaugur sagði að sala á laxi hefði heldur dregist saman á Bretlandsmarkaði í kjölfar mikilla verðhækkana. Að sama skapi hafi verið gott framboð á þorski og verð verið viðundandi fyrir stórverslanirnar. Þetta hafi þó verið að snúast við undanfarnar vikur og sala á laxi heldur að vaxa.

Aukning í laxi – samdráttur í hvítfiski

„Það er svipuð þróun í Bretlandi og annars staðar í Evrópu þar sem sala á ferskum flökum hefur verið að aukast á sama tíma og sala á frosinni vöru hefur dregist saman. Það er mjög sláandi þegar tölur yfir sölu á ferskum fiski eru skoðaðar frá 1980 að sala á ferskum laxi hefur aukist um 300% en sala á ferskum hvítfiski á sama tíma dregist saman um 65%. Það sem spilar inn í þetta er að framboð á laxi eykst ár frá ári og hafa framleiðendur staðið sig vel í vöruþróun. Í Tesco, stærstu stórverslanakeðjunni í Bretlandi, eru til að mynda í boði 92 mismunandi tegundir af laxi en 47 vörur af þorski. Þá má nefna að Tesco er með um 1.500 tegundir af kjúklingi í boði,“ sagði Sturlaugur.

Hann bendir á að markaðssetning og framsetning á vörum úr þorski sé ábótavant. Í ferskfiskborði Tesco sé til að mynda boðin þorskflök sem merkt eru Atlantic MSC Cod en einungis gefið upp að þorskurinn komi úr Norður-Atlantshafinu og gæti því verið frá Rússlandi, Noregi, Íslandi eða Norðursjónum. Þarna segir Sturlaugur mikið verk að vinna.

Sturlaugur sagði að það hafi gerst í fyrsta sinn á árinu 2017 að sjávarafurðir urðu verðmætasta próteinið í smásölu og tóku þar með fram úr rauðu kjöti.

„Það er með Bretana að þeir neyta óhemju magns af svínakjöti, beikoni og pulsum. Sömuleiðis er mikil neysla á kjúklingi en í magni séð er minna selt af fiski en þar sem fiskurinn er að meðaltali dýrasta próteinið eru sjávarafurðir orðnar dýrasta próteinið sem selst í smásölu."

Eldra fólk og fáir í heimili

„Það er eldra fólkið sem neytir uppistöðunnar af fiskinum í Bretlandi. 70% fiski sem seldur er í smásölu er neytt af fólki sem er 45 ára eða eldra. Þriðjungi alls fisksins er neytt af þeim sem eru 65 og eldra. Einnig er athyglisvert að sjá að tæplega 70% af öllum fiskinum er neytt af fólki sem er annað hvort eitt eða tvennt í heimili. Það er því greinilegt að stórar fjölskyldur kaupa ekki mikinn fisk og hugsanlega vegna þess að hann er dýr og af einhverri ástæðu er oft erfitt að fá börn til að borða fisk.“

Sturlaugur segir mikið stríð milli stórverslanakeðja í Bretlandi, ekki síst vegna innkomu þýsku lágvöruverslananna Aldi og Lidl. Aldi hafi sérstaklega verið sókndjarfir í sinni markaðssókn og opna um það bil 70 nýjar verslanir á hverju ári. Þær eru nú alls 775 talsins og stefnir Aldi á að verlsanirnar verði orðnar 1.200 árið 2025. Tesco starfrækir 3.400 stórverslanir og er nú, ásamt Sainsbury´s, Morrison og ASDA, í mikilli vörn  og samkeppnin er gríðarlega hörð á þessum markaði.

30-40% fiskskammta djúpsteiktir

Fiskneysla utan heimilis fer að stórum hluta til á skyndibitastöðum í Bretlandi. 30% neyslunnar fer fram á dæmigerðum skyndibitastöðum, 18% á Fish and chips veitingastöðum, 16% á krám, 16% á veitingastöðum með fullri þjónustu, 11% í skemmtigörðum og flugvöllum og um 9% í mötuneytum í skólum og vinnustöðum. 35-40% af öllum fiskskömmtum sem neytt er utan heimilis er djúpsteiktur fiskur. Þorskur og ýsa er með yfirgnæfandi stöðu í öllum þeim fiski sem er djúpsteiktur, eða samanlagt með um 80% markaðshlutdeild. Bretar haldi með öðrum orðum mikilli tryggð við þorsk og ýsu fyrir þessa matreiðsluaðferð. Túnfiskur og lax hafa yfirburðastöðu í fiskneyslu utan heimila þegar þegar um aðra matseld er að ræða en djúpsteikingu en þorskur og ýsa hafa að sama skapi litla hlutdeild, eða um 11%.

„Fish and chips er auðvitað gríðarlega mikilvægur markaður fyrir Íslendinga. 11.500 Fish and chips veitingastaðir eru í Bretlandi. Það fara um 50.000 tonn af sjófrystum þorski og ýsu úr Norður-Atlantshafi inn á þennan markað á hverju ári. Margir hafa spáð því í langan tíma að þessi markaður fari að dragast saman en þótt ótrúlegt megi virðast er hann ennþá í hægum vexti. Frá árinu 2009 hefur þessi markaður vaxið um 7%.“

Sturlaugur segir að þrátt fyrir þetta séu ákveðnar blikur á lofti hvað varðar Fish and chips. Fiskverð hafi aldrei verið hærra í pundum og þar hafi Brexit meðal annars haft mikil áhrif. Sömuleiðis hafi verð á kartöflum tvöfaldast á árið 2018 sem skýrist af uppskerubresti vegna hinna miklu hita og þurrka sem voru á Bretlandi síðastliðið sumar. Þá hafi launakostnaður og orkukostnaður hækkað og fiskframboð hafi verið óstöðugra. Því er spáð að 300-400 Fish and chips veitingastaðir loki á næstu mánuðum vegna rekstrarerfiðleika. Eitthvað af framboðinu muni sennilega færast yfir til annarra veitingastaða sem vegnar betur.

Tækifærin blasa við

„Þegar horft er á ytra umhverfið í Bretlandi þá nokkrar áskoranir yfirvofandi. Brexit er þar helsta málið. Pundið er veikt og óvissa áfram. Viðskiptastríð milli Bandaríkjanna og Kína hefur óbein áhrif og leiddi m.a. til tolla á ýsu sem kemur frá Kína til Bandaríkjanna. Meira af þessari ýsu mun því væntanlega rata til Evrópu. Öll óvissa er neikvæð fyrir markaðinn. Verð hafa hækkað vegna veikingu pundsins og kaupmáttarrýrnun hefur orðið hjá almenningi. Á sama tíma hefur verið skortur á hvítfiski og niðursveifla í flestum tegundum sem hefur pressað upp verðið á flestum tegundum.“

Sturlaugur segir að þrátt fyrir þetta, blasi mörg tækifæri við á breskum markaði. Bretar séu kannski ekki frægir fyrir hollustuhætti en hægfara breyting á sér stað í átt til hollari afurða. Helmingur Breta hafi til að mynda reynt að létta sig á síðasta ári og fleiri hafi ákveðið að drekka ekki áfengi. Einn af hverjum sjö er með áskrift í líkamsrækt og sala íþróttafatnaðar vex hraðar en tískufatnaðar. Neysla á rauðu kjöti hefur dregist saman. Um 39% af þjóðinni vilji auka fiskneyslu sína og er meðvitaður um hollustu fisks.