mánudagur, 1. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Spáir metveiðum í botnfiski

Guðsteinn Bjarnason
30. nóvember 2019 kl. 07:00

Undanfarin ár hefur botnfiskveiðin verið á bilinu 406 til 480 þúsund tonn, en ætti að komast upp undir 490 þúsund tonn á næsta ári. Þessu spáir Kristján Hjaltason, sölustjóri hjá rússneska útgerðarrisanum Norebo Europe.

Kristján hefur á hverju ári tekið saman helstu tölur um afla og framboð í sjávarútvegi og fiskeldi, bæði hér á landi og á heimsvísu, ásamt því að spá í horfurnar framundan. Hann heldur úti vefnum Factsofseafood.com þar sem hann hefur um árabil tekið saman upplýsingar af þessu tagi.

„Í botnfiskinum liggur þetta nokkuð beint fyrir,“ segir Kristján. Það snýst bara um kvótann. „Svo reyni ég að áætla þorsk utan lögsögu, taka Barentshafið inn í. Þannig að þetta eru möguleikarnir á næsta ári. Það liggur allt nokkuð skýrt fyrir ef allt gengur eðlilega í veiðunum.“

Hann segir þó meiri tíðindi í uppsjávarfiskinum og spáir aukningu á næsta ári. Þar hefur hann eins og undanfarin ár leitað til nokkurra útgerðarmanna og beðið þá um að spá í næsta ár.

„Þetta er bara meðaltalið af þeirra spá á næsta ári. Þeir spá loðnuveiðum, hvort sem það er óskhyggja eða annað. En sumir rökstyðja það.“

Veiðar uppsjávartegunda urðu 738.000 tonn í fyrra sem er í meðallagi síðustu 10 ára, en vegna loðnubrestins í ár og samdrátt í bæði makríl og kolmunna eru horfurnar í ár ekki góðar.

Bjartsýni í uppsjávarveiðum
Kristján telur að uppsjávarveiðarnar geti farið upp í 687 þúsund tonn árið 2020, eftir að hafa hrapað líklega niður í 518 þúsund tonn á árinu sem brátt fer að ljúka. Mestu munar sem sagt um loðnuna í þeirri spá.

Tölurnar sem Kristján hefur tekið saman má að hluta sjá hér á síðunni, en nánar er sagt frá þeim á vefnum Factsofseafood.com, sem Kristján heldur úti.

Þar skoðar hann tegundirnar hverja fyrir sig og leitar þá einnig til útgerðarmanna sem best þekkja til, þar á meðal um hörpudisk og humar.

„Ég leita til sumra, eins og með hörpudiskinn og humarinn. Sumt er áhugavert eins og sæbjúgun. Þau hafa verið sterk en nú er búið að draga mikið úr veiðiheimildum þar.“

Hann metur það svo að á næsta ári gætu sæbjúgun farið niður í 2.700 tonn, en þau urðu næstum því 6.000 tonn á síðasta ári og líklega 5.400 tonn á þessu ári. Þessar tölur eru reyndar hærri en áður hafa sést, því síðasta áratuginn hefur sæbjúgnaveiðin oftast verið á bilinu 1.000 til 3.000 tonn.

Flæmski hatturinn opnast
Þá spáir hann auknum rækjuveiðum utan lögsögu á næsta ári, og horfir þar til þess að Flæmski hatturinn hafi verið opnaður á ný fyrir rækjuveiðum eftir lokun undanfarin ár vegna lélegs ástands á stofninum.

„Það er ekki búið að veiða þarna í tíu, fimmtán ár held ég. En þeir eru að opna það aftur þannig að þar er tækifæri fyrir Íslendinga. Ég held það eigi að verða 4-5000 tonn í heildina, en maður veit svo sem ekki hvað Íslendingar ætla að fá þar. Ég set inn þrjú þúsund tonn og það er kannski svolítil bjartsýni, en maður verður að sjá hvað er hægt.“

Fiskeldi er síðan í miklum vexti hér á landi og þar leitar Kristján einnig til nokkurra í faginu.

„Þetta er byggt á þeirra mati. Bleikjan er þarna áhugaverð. Íslendingar hafa svo sterka stöðu í bleikjunni og það er góð þróun þar.“

Sérstaða villta fisksins
Ennfremur tekur Kristján saman tölur um heimsframboð á helstu samkeppnistegundum Íslendinga í bæði botnfiski og fiskeldi.

„Þar nýti ég mér tölur frá þessum ráðstefnum eins og Groundfish Forum og Pelagic Fish Forum.“

Sjálfur sækir hann Groundfish Forum fyrir hönd Rússlands og leggur þar fram áætlanir um veiðar Rússa.

„Við erum að veiða 90 milljón tonn af villtum fiski í heiminum og hefur hann sína sérstöðu, en eldið er allt annað. Það er orðið mikilvægt að greina sig frá eldinu og leggja áherslu á villta fiskinn.“

Kristján hefur starfað í sjávarútvegi síðan 1986, lengst af hjá Icelandic Group í Þýskalandi, á Íslandi og í Frakklandi og um tíma sem sjálfstæður ráðgjafi. Undanfarinn áratug hefur hann starfað hjá Norebo Europe.

Vefnum Factsofseafood.com hefur hann haldið úti í um áratug.

„Ég ætlaði að setja upp síður fyrir sjálfan mig aðallega og hef verið að setja þarna inn efni sem ég hef verið að vinna í gegnum árin. Síðustu árin hef ég svo verið að safna tölum og ákvað að setja þarna inn tegundir sem ekki allir eru að skoða, til viðbótar við þessar stóru tölur.“

Í botnfiskinum liggur þetta nokkuð beint fyrir.