þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Spánn vill styrkina áfram

24. september 2012 kl. 12:42

Spánskt skip.

Um 27% af styrkjum til sjávarútvegs innan ESB fara í svokallaða aðlögun flotans

Spánn, með sjávarútvegsráðherrann, Miguel Arias Cañete, í forsvari, er í broddi fylkingar nokkurra ríkja sem berjast fyrir því að Evrópusambandið felli ekki niður styrki til úreldingar fiskiskipa eins og boðað hefur verið. Þetta kemur fram á Seafood Source.

Spánn hefur meðal annars stuðning Frakklands, Írlands, Lettlands, Möltu, Póllands, Portúgals og Slóveníu til að kalla eftir áframhaldandi styrkjum á næsta fjárveitingartímabili, frá 2014 til 2020.

Nú fara um 4,3 milljarðar evra (690 milljarðar ISK) í styrki til sjávarútvegs innan ESB. Þar af fara 27% til svokallaðrar aðlögunar flotans.

Í bréfi til Maríu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, leggur Miguel Arias Cañete mikla áherslu á það að aðlaga þurfi stærð flotans til að ná markmiði um hámarksafrakstur fiskstofna við sjálfbærar veiðar. „Við getum ekki stokkið beint úr kerfi styrkja í kerfi þar sem engir styrkir eru í boði. Við vilum að fiskveiðistefna ESB leiði til nútímavæðingar fiskiskipaflotans án þess að veiðigetan aukist,“ segir Miguel Arias Cañete.