þriðjudagur, 26. maí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Staða veiðarfæra verði sýnilegri

Guðsteinn Bjarnason
13. maí 2020 kl. 10:30

Leifar af veiðarfærum komnar upp í fuglabjarg í norsku eyjunni Runde, skammt frá Álasundi. MYND/Arild Hareide

Norrænt samstarf gegn draugaveiðum og tapi veiðarfæra

Hafrannsóknarstofnun tók þátt í samstarfsverkefni undir nafninu Clean Nordic Oceans. Meðal niðurstaðna er að efla þurfi vitund meðal sjómanna og lagðar eru til aðgerðir gegn mengun í hafi.

„Veiðarfæri og leifar af veiðarfærum sem týnast í hafi eru óheppileg fyrir líf í sjó og geta stuðlað að bæði þjáningum og siðfræðilega röngum dauða með veiðum drauganeta,“ segir í skýrslu frá norræna samstarfsverkefninu Nordic Clean Oceans. „Það er í þessu samhengi ógnvekjandi að jafnvel þótt vandinn nú sé orðinn sýnilegri en áður er almennt talið að langstærstur hluti mengunar í hafi sjáist ekki heldur hafi sokkið til botns.“

Öll norrænu ríkin tóku þátt í samstarfinu ásamt fulltrúum annarra þjóða og var markmiðið að miðla gagnkvæmri þekkingu, aðferðum og aðgerðum til að draga úr hættu á draugaveiðum og mengun hafsins vegna tapaðra veiðarfæra.

„Nauðsynlegt er að gera stöðu veiðarfæranna „sýnilegri“ til að draga úr hættu á skorið sé á yfirborðshluta og að veiðarfæri rekist saman,“ segir í greinargerðinni. „Mælt er með lausnum til að tilkynna eða láta vita þannig að veiðarfærin verði stafrænt sýnileg öðrum sjófarendum. Einnig er hvatt til þess að fara að leiðbeiningum FAO um merkingu veiðarfæra.“

Þá er lagt til að öll veiðarfæri á hafsbotni verði merkt. Það geti hvatt menn til að tilkynna þegar þau tapast. Jafnframt aukist líkur á því að hægt sé að skila þeim til eigandans og endurnýta þau.

„Það þarf augljóslega að gera kröfu um tilkynningar um staðsetningu týndra veiðarfæra með einföldu og sérhönnuðu verkfæri fyrir fiskimenn. Ekki verður betur séð en að þetta sé hagkvæm leið til að afla nauðsynlegra upplýsinga og þekkingar.“

Mikilvægt sé að fjarlægja veiðarfæri af hafsbotni.

„Veiðarfæri á hafsbotni geta stefnt lífi í sjó í hættu og eru mengandi í hafinu með löngum niðurbrotstíma, svo mælt er með því að fjarlægja þau af hafsbotni. Það eru til hagnýtar aðferðir til hreinsunar en það þarf að aðlaga þær að aðstæðum í hverju landi fyrir sig ásamt innleiðslu kerfa um tilkynningar um staðsetningu týndra veiðarfæra.“

Einnig er hvatt til viðhorfsbreytinga og betri starfshefða.

„Á hverju ári bætast við í heimshöfin um 8 milljónir tonna af plasti. Einnig er áætlað að um það bil 640.000 tonn fiskveiðibúnaðar tapist árlega. Engar tölulegar upplýsingar liggja fyrir um það hve mikið tapast af veiðarfærum, verður eftir á hafsbotni eða er fargað í sjóinn á Norðurlöndum,“ segir í skýrslunni.