sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stærsta laxeldisstöð Evrópu á landi rís í Noregi

Guðsteinn Bjarnason
15. júlí 2018 kl. 07:00

Hér á landi er landeldi stundað í nokkrum stíl meðfram sjóeldi. Myndin er frá landeldisstöð Samherja í Öxarfirði. MYND/AÐSEND

Norðmenn ætla sér stóra hluti í landeldi á næstu árum. Salmon Evolution hyggst reisa stærstu eldisstöð Evrópu í Noregi og Nordic Aquafarms reisir enn stærri eldisstöð í Bandaríkjunum.

Norska fyrirtækið Salmon Evolution hyggst reisa laxeldisstöð á landi í sveitarfélaginu Fræna í Noregi. Þetta verður stærsta laxeldisstöð á landi í Evrópu. Stefnt er á að framleiða þar allt að 28.800 tonn árlega. Heildarlífmassi eldisins getur orðið allt að 13.300 tonn.

Fræna er í fylkinu Mæri og Raumsdalur í Vestur-Noregi. Sveitarfélagið gaf í byrjun júlí grænt ljós á þessi eldisáform, en fyrirtækið á þó enn eftir að tryggja fjármagn til verksins að því er fram kemur á fréttavefnum Undercurrent News.

Ingjarl Skarvøy, framkvæmdastjóri Salmon Evolution, hefur sagt í norskum fjölmiðlum að heildafjárfestingin verði á endanum þrír milljarðar norskra króna eða um 40 milljarðar íslenskra króna, en eldisstöðin verði reist í áföngum þannig að fjárþörfin verði ekki þetta mikil strax í byrjun.

„Við erum sérlega ánægð með að heimildirnar séu komnar og hægt verði að halda áfram vinnu við að gera þessi áform að veruleika,“ er haft eftir Skarvøy í Undercurrent News.

Stórtækir í Bandaríkjunum
Annað norskt fyrirtæki, Nordic Aquafarms, skýrði fyrr á árinu frá áformum sínum um að reisa stóra laxeldisstöð á landi í Maine í Bandaríkjunum, en þar verði framleiðslan árlega upp á allt að 33 þúsund tonn, þannig að þetta verður ein stærsta laxeldisstöð heims.

Þar er ráðgert að fjárfesta fyrir um 15 milljarða króna en fyrirtækið hefur verið að tryggja sér 40 ekra landsvæði í útjaðri borgarinnar Belfast í Maine.

Nordic Aquafarms segist á vef sínum vera fyrsta fyrirtækið í Noregi til þess að flytja laxeldi sitt upp á land í stórum stíl. Fyrirtækið er einnig að reisa laxeldisstöð á landi við Fredrikstad í Noregi. Sú eldisstöð verður að sögn fyrirtækisins sú stærsta í Evrópu en er þó um fimm sinnum minni en eldisstöðin í Maine á að verða.

Áætlað hefur verið að laxeldi hér á landi geti farið upp í eða jafnvel vel yfir 20 þúsund tonn á þessu ári og hefur það þá nærri tvöfaldast frá síðasta ári þegar hér voru framleidd 11 þúsund tonn af eldislaxi. Áhættumat Hafrannsóknarstofnunar gerir ráð fyrir því að óhætt sé að framleiða allt að 71 þúsund tonni af eldislaxi hér á landi.

Í Noregi nemur framleiðslan 1.3 milljónum tonna á ári.