föstudagur, 15. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stærsti fiskveiðisamningur ESB rennur út í mars

25. janúar 2011 kl. 12:19

Frá höfninni í Laayoune í Marokkó (Mynd: Snorri Jónsson)

Spánverjar leggja hart að ESB að endurnýja fiskveiðisamning við Marokkó

Forsvarsmenn í spönskum sjávarútvegi leggja nú hart að Evrópusambandinu um að endurnýja fiskveiðisamning ESB og Marokkó sem rennur út í mars næstkomandi.

Evrópusambandið borgar Marokkó 36 milljónir evra, eða 5,7 milljarða íslenskra króna, fyrir núverandi fiskveiðisamning. Þetta er talinn vera stærsti fiskveiðisamningur sem ESB hefur gert og felur í sér leyfi fyrir veiðar 119 evrópskra fiskiskipa í lögsögu Marokkó.

Spánskar útgerðir eiga mest undir því að þessi samningur verði framlengdur. Hafa Spánverjar tekið höndum saman við stjórnvöld í Marokkó til að vinna málinu framgang. Fulltrúi spænskra útgerðarmanna segir á vefnum fis.com að jákvæð skref hafi verið stigin og að frumkvæði Spánar og Marokkó veki vonir um að samningar náist. Hann segir að Marokkómenn séu tilbúnir til áframhaldandi samstarfs.

ESB hefur hins vegar sett sem skilyrði fyrir endurnýjun samningsins að stjórnvöld í Marokkó sýni fram á að núverandi samningur gagnist Vestur-Sahara. Ef ESB skrifar ekki undir endurnýjun í febrúar verða evrópsk skip að fara út úr lögsögu Marokkó.