sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stærsti sölusamningur Marel í fiskiðnaði

20. apríl 2012 kl. 11:57

Marel búnaður í fiskiðjuveri.

Ný flæðilína fyrir hvítfisk seld til Kína.

Marel gekk nýlega frá stærstu sölu fyrirtækisins í fiskiðnaði með samningum við fiskframleiðanda í norðausturhluta Kína. Um er að ræða nýja flæðilínu fyrir hvítfisk sem verður sérstaklega sniðin að þörfum kínverskra fiskframleiðenda.

Auk Marel komu íslensku fyrirtækin 3X Technology og Skaginn að því að gera þetta nýsköpunarverkefni að veruleika: “Þessar sérsniðnu flæðilínur voru hannaðar sérstaklega fyrir kínverskan markað,” segir Kristmann Kristmannsson, söluráðgjafi Marel. “Kínverski markaðurinn er að breytast, fyrirtæki sækjast í auknum mæli eftir sjálfvirkum búnaði og tækjum í stað þess að vera með mikinn mannafla í framleiðslu.“

Í frétt frá Marel segir að sölusamningur sem þessi sé til marks um þá stefnu sem Marel hafi fylgt á alþjóðlegum markaði, að leggja enn frekari áherslu á sókn á nýmörkuðum eins og Kína þar sem vöxtur sé mikill. Fiskiðnaðarsetur Marel í Qingdao muni gegna lykilhlutverki við uppbyggingu á starfseminni í Kína þar sem miklu skipti að viðskiptavinir Marel hafi aðgang að þjónustu nálægt sínu starfssvæði.

Flæðilínan er meðal þess hátæknibúnaðar sem Marel sýnir á sjávarútvegssýningunni í Brussel í næstu viku. Fjárhæð samningsins samsvarar 1-2% af ársveltu Marel.