

„Á undanförnum árum hefur fjöldi framandi sjávarlífvera við Ísland aukist mikið. Í flestum tilfellum eru þetta sömu tegundir og hafa fundist í Evrópu. Aðeins fáar af tegundunum er hægt að kalla ágengar eða skaðlegar, en í því sambandi mætti þó nefna grjótkrabba, sandrækju, flundru og sagþang,“ segir á vef Hafrannsóknastofnunar.
Og áfram segir:
„Líklegast er að megnið af framandi sjávartegundum hafi borist til landsins með kjölfestuvatni skipa. Flestar þessara tegunda fundust fyrst við Suðvesturland sem skýra má með tíðum ferðum flutningaskipa á svæðið, hæsta hitastigi í sjó við landið og því að líklega er þetta það svæði við landið sem mest hefur verið rannsakað.“
Í málstofu Hafrannsóknastofnunar næstkomandi fimmtudag mun Guðrún Þórarinsdóttir flytja erindi um þetta mál sem nefnist: Framandi sjávarlífverur við Ísland. Erindið verður flutt kl. 12:30 í fundarsal á fyrstu hæð að Skúlagötu 4.
Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunar.