þriðjudagur, 18. janúar 2022
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefna á endurnýjun uppsjávarvinnslu

Guðjón Guðmundsson
7. desember 2021 kl. 07:00

Brim keypti Svan RE nýlega og hefur nú þrjú öflug uppsjávarskip á sínum snærum. Mynd/Jón Páll Ásgeirsson

Brim hf. með nýtt verkefni á teikniborðinu.

Vinna er í gangi við skoðun á umtalsverðri uppbyggingu á uppsjávarvinnslu Brims á Vopnafirði. Undirbúningur hefur staðið yfir af hálfu sveitarfélagsins með deiliskipulagsvinnu. Um gæti verið að ræða verulegar fjárfestingar í hátæknivinnslu á uppsjávarafurðum fyrir manneldi. Auk hennar rekur Brim öfluga fiskimjölsverksmiðju á staðnum.

Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Brims, segir fyrirtækið sé að skoða það að endurnýja uppsjávarvinnslu félagsins á Vopnafirði. Liður í því að styrkja hráefnisöflun fyrir uppsjávarvinnslu félagsins hafi einnig verið kaupin á uppsjávarskipinu Ivid af Arctic Prime Fisheries í ágúst síðastliðnum. Skipið heitir nú Svanur RE en fyrir á Brim uppsjávarskipin Venus NS og Víking AK.

„Skipulagsmálin hafa verið í ferli hjá sveitarstjórninni og við höfum haft endurnýjun uppsjávarvinnslunnar til skoðunar. Það er ekki niðurneglt hvaða leið við förum í þeim efnum en við horfum til þess að endurnýja vinnslulínuna. Nokkrir möguleikar eru á borðinu en, eins og ég sagði, þá hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvaða leið við veljum,” segir Ægir Páll.

Deiliskipulagsferlið hefur staðið yfir frá því síðasta vor og er að ljúka þessa dagana. Í framhaldinu liggur fyrir að taka ákvörðun snemma á næsta ári hvort og þá hvaða leið verður farin í því að endurnýja uppsjávarvinnsluna.

„Við erum með megnið af uppsjávarstarfseminni á Vopnafirði. Þessar fyrirætlanir miða að því að styrkja þá einingu enn frekar. Þarna eru undir miklar fjárfestingar en það er nú einu sinni þannig að allt í kringum uppsjávarvinnslu kostar mikið en vonandi ber okkur gæfa til þess að fara í fjárfestingu sem skilar sér til baka.”

Meiri samfella í uppsjávarveiðum

Uppsjávarstarfsemi sjávarútvegsfyrirtækjanna er vertíðarbundin en engu að síður hefur á síðustu árum myndast meiri samfella í veiðum og vinnslu, ekki síst eftir að makríll fór að veiðast við landið að  einhverju ráði árið 2007.

Ægir Páll segir að það verði áskorun að veiða allt þetta magn loðnu sem veiðar eru heimilaðar á. Brim keypti Svan RE áður en loðnukvótinn var gefinn út og stendur því ágætlega að vígi nú með þrjú öflug uppsjávarskip.

„Stór hluti loðnunnar mun fari í fiskimjöl og lýsi . Við töpuðum um það bil 100 þúsund tonna markaði fyrir frystar loðnuafurðir þegar lokað var fyrir viðskipti við Rússland. Þar var markaður sem við framleiddum inn á. Með því að taka inn Svaninn styrkjum við hráefnisöflunina. Makrílveiðarnar í ár voru meiri áskorun en áður. Makríllinn var dreifðari og við þurftum að sækja hann lengra. En við erum vel staðsettir á Vopnafirði með tilliti til makrílveiða og til veiða á norsk-íslensku síldinni sem var að veiðast í Héraðsflóanum,” segir Ægir Páll.