laugardagur, 6. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefna á stórtækt eldi á þorski

17. mars 2020 kl. 07:00

Þorskeldi hefur aldrei náð flugi vegna erfiðleika í eldistækni - nú virðist það vera að breytast. Aðsend mynd

Þorskeldisfyrirtækið Norcod stefnir að því að verða heimsins stærsti framleiðandi á eldisþorski.

Norska þorskeldisfyrirtækið Norcod stefnir að því að verða heimsins stærsti framleiðandi á eldisþorski. Mikill áhugi er meðal fjárfesta á verkefninu og hafa þeir nú þegar lagt því til 105 milljónir NOK, 1,5 milljarð ÍSK.

Norcod lagði fram áskriftartilboð til fjárfesta sem stóð yfir dagana 31. janúar til 5. febrúar  síðastliðinn. Fjármagnið sem safnaðist kemur frá nýjum fjárfestum jafnt frá Noregi og Danmörku. Sparebanken 1 Markets skipulagði áskriftartilboðin.

Margir fjárfestanna hafa gefið í skyn að þeir muni standa að baki Norcod hvað varðar fjármögnun verkefnisins til framtíðar.

Norskir fjárfestar eru 13 talsins, bæði frá Þrándheimi, þar sem höfuðstöðvar Norcod eru, og frá Ósló. Sumir þeirra tengjast öðrum fiskeldisverkefnum sem bendir til mikillar tiltrúar þeirra á verkefnið. Norcod stefnir að því að slátra 9.000 tonnum af þorski árið 2021 og framleiðslan verði komin upp í 30.000 tonn árið 2025.

Fyrstu fiskar í kvíar

Fjármagnið sem safnaðist hyggst Norcod nýta til þess að byggja upp lífmassa í eldinu. Fyrsta ungfiskinum var sleppt í kvíar í janúar á þessu ári.

„Fyrstu 200.000 fiskunum í kvíunum farnast betur en við höfðum átt von á.  Bæði er dánartíðnin mun lægri og vaxtarhraðinn meiri,“ segir Rune Eriksen, framkvæmdastjóri Norcod. Það var einmitt há dánartíðni og lítill vaxtarhraði sem olli því að tilraunir til þorskeldis fóru út um þúfur síðast þegar þær voru reyndar fyrir um það bil einum áratug. Miklar breytingar hafa orðið á þessum tíma; seiðin eru af mun hærri gæðum og búin betri eiginleikum og tækninni hefur fleygt fram.

Danskir fjárfestar eru einnig mjög áhugasamir um verkefni Norcod. Þeir lögðu fyrirtækinu til 28,5 milljónir DKK, um 540 milljónir ÍSK, í nóvember síðastliðnum á einungis einni klukkustund.