laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefnir í enn eitt metárið hjá Norges Råfisklag

23. maí 2016 kl. 14:22

Þorski landað í Noregi.

Horfur á að veltan fari í 150 milljarða íslenskar í ár

Fyrir helgina náði veltan hjá Norges Råfisklag sex milljörðum króna, tæpum 90 milljörðum íslenskra króna. Þetta er næstum því eins mikið og veltan var á öllu árinu 2013. Hátt verð, háir kvótar og hagstætt gengi fyrir útflutningsgreinar er ástæðan fyrir þessum stórauknu umsvifum.

Frá þessu er greint í Fiskeribladet/Fiskaren. Þar er tekið dæmi af fiskimanni sem fékk 10,50 krónur norskar á kíló fyrir þorskinn eins og honum er landað í Noregi árið 2013 (157 ISK). Í ár hefur verðið hins vegar verið frá 22 krónum og upp í 25 krónur á kílóið (374 ISK).

Forsvarsmenn Norges Råfisklag eru bjartsýnir og telja að heildarveltan á árinu 2016 fari yfir 10 milljarða króna (150 milljarða ISK). Árið 2014 varð veltan 7,9 milljarðar sem var met. Í fyrra var bætt um betur og veltan fór í 9,7 milljarða. Það stefnir því allt í þriðja metárið í röð.