þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefnt að smásölufiskmarkaði í Reykjavík

7. nóvember 2009 kl. 14:36

Allt stefnir í að fljótlega verði stofnaður smásölufiskmarkaður í Reykjavík. Fram er komin samantekt um möguleika fiskmarkaðar fyrir almenning, þar sem gestir og gangandi geta kynnst óþrjótandi möguleikum íslensks sjávarfangs og komist í tæri við afurðirnar og keypt sér spennandi hráefni til matargerðar. 

Þetta kemur fram á vef AVS-sjóðsins sem styrkir verkefni sem stuðla að auknu virði sjávarfangs. Þar er spurt: Af hverju tíðkast ekki hér á landi að almenningur geti keypt ferskan fisk á hafnarbakkanum eða á fiskmarkaði? Ísland er þekkt fyrir mikil og góð fiskimið og fiskafurðir af miklum gæðum. Af hverju er ekki gert meira út á upplifun í tengslum við fiskinn, bæði fyrir landsmenn og fyrir ferðamenn? Margir eru áhugasamir fyrir hugmyndinni um fiskmarkað, en af einhverjum ástæðum hefur henni ekki verið komið í framkvæmd.

AVS verkefninu „Fiskmarkaður fyrir almenning“ er nú lokið. Verkefnið snérist um að kanna grundvöll fyrir því að koma á fót fiskmörkuðum á Íslandi fyrir almenning og ferðamenn. Þá voru unnar tillögur að því hvernig mætti standa að slíkum markaði. Megintilgangurinn var að hvetja til stofnunar (smásölu-) fiskmarkaða víðsvegar um landið og þar með styrkja tengingu neytenda við sjávarafurðir. Mikill áhugi hefur verið á verkefninu og stefnir allt í að fljótlega verði slíkur markaður stofnaður í Reykjavík, segir á vef AVS-sjóðsins.

Sjá nánar HÉR.