sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefnt að fjórföldun framleiðslunnar

Guðjón Guðmundsson
22. apríl 2019 kl. 12:00

Jordi Trias Fita, forstjóri Sea Stolt Farm, móðurfélags Stolt Sea Farm á Reykjanesi

Eldi á senegalflúru hjá Stolt Sea Farm á Reykjanesi

Jordi Trias Fita, forstjóri  Sea Stolt Farm, móðurfélags Stolt Sea Farm á Reykjanesi, sem elur upp senegalflúru til slátrunar, segir að áform séu uppi hjá Sea Stolt Farm að fjórfalda framleiðslugetuna í eldisstöðinni. Þannig færi hún úr 500 tonnum á ári í 2.000 tonn. Hann kveðst þó ekki geta upplýst hvenær farið verði í þessar framkvæmdir.

 Sea Stolt Farm er dótturfyrirtæki Stolt Nielsen sem er alþjóðlegt fyrirtæki með norskar rætur. Það sinnir  m.a.  sjóflutningum á gasi og í flutningaskipaflotanum eru 170 skip. Þá er það umsvifamikið í eldi á sandhverfu, senegalflúru og styrju.  Fyrirtækið er heimsins stærsti framleiðandi sandhverfu og rekur sjö eldisstöðvar á Spáni, eina í Noregi og eina í Portúgal. Þá á það tvær eldisstöðvar á senegalflúru, eina á Íslandi og aðra í Frakklandi. Þessu til viðbótar rekur það fjórar eldisstöðvar á styrju í Kaliforníu og framleiðir þar kavíar úr styrjuhrognum.

Mikil sérstaða

Aðspurður um hvað hafi ráðið staðarvalinu á sínum tíma á Reykjanesi segir Jordi að Stolt Sea Farm hafi ávallt varið miklum tíma í leit að kjöraðstæðum fyrir eldisstöðvum fyrirtækisins. Reykjanesskaginn hafi sameinað alla þá þætti sem lúta að þörfum framleiðslunnar en einnig hafi opinberar ívilnanir og stuðningur ráðið miklu.

Eldisstöðin á Reykjanesi er á 22.000 fermetra gólffleti en fullbyggð verður hún á 75.000 fermetrum. Lóðin undir stækkunina er tilbúin og einungis beðið eftir að höfuðstöðvarnar gefi grænt ljós. Um 21 manns vinna við stöðina núna en þegar hún verður fullbyggð má áætla að starfsmenn verði komnir upp í um 70 manns.

„Eldisstöð okkar á Reykjanesi hefur mikla sérstöðu. Í fyrsta lagi þá rekum við, enn sem komið er, aðeins tvær eldisstöðvar fyrir senegalflúru og önnur þeirra er á Íslandi. Í öðru lagi er þetta eina starfsstöðin okkar í öllum heiminum þar sem við fáum heitt vatn frá jarðvarmavirkjun sem í sjálfu sér er einstakt,“ segir Jordi.

Of snemmt að ræða um seiðaeldi

Það sérstæða við eldisstöðina er að hún notar afgangsorku frá HS Orku. Virkjunin sækir 8 gráða heitan sjó í þrjár borholur. Sjórinn er nýttur til að kæla túrbínur orkuversins. Tólf dælur þarf til að kæla tvær túrbínur. Við kælinguna hækkar hitinn á sjónum í 35 gráður og er hann leiddur inn í dreifihús í eigu Stolt Sea Farm um 600 metra leið. Stolt Sea Farm hefur einnig borað fimm borholur í nágrenninu og sækir þangað 8 gráða heitan, hraunsíaðan sjó sem er blandaður affallinu frá virkjuninni. Þaðan fer sjórinn um 20 gráðu heitur inn í ker í skálunum fimm og súrefni er bætt út í kerin. Það er því vart hægt að hugsa sér umhverfisvænna og „grænna“ fiskeldi. Eingöngu jarðhiti er nýttur við framleiðsluna. Í þessu felast mikil verðmæti þegar kemur að markaðssetningu afurðanna.

Hingað til hafa seiði verið flutt í tönkum frá Spáni til eldisstöðvarinnar á Reykjanesi. Með fjórföldun á afköstum stöðvarinnar er kominn grundvöllur fyrir uppbyggingu á seiðaeldi þar. Jordi segir ákvörðun um það ráðast af mörgum samverkandi þáttum og of snemmt sé að slá nokkru föstu um hvort af því geti orðið.

Markaðir

Senegalflúra þykir herramannsmatur. Um sextán mánuði tekur að ala hana upp í sláturstærð. Þá er hún um 420 grömm og miðað er við að hún passi heil á einn matardisk, eins og tíðkast að bera hana fram á betri veitingastöðum. Fiskurinn er fluttur út heill, ísaður í frauðplastkössum og um 90% afurðanna hefur farið flugleiðina á markaði í US og EU.Með góðri kælingu frá slátrun er endingartími fisksins allt upp í 16 dagar. Kílóverðið er nálægt um 2.000 krónur.

„Við höfum alltaf haft uppi þau áform að stækka eldisstöðina á Íslandi upp í 2.000 tonn. En eins og staðan er núna þá erum við að reisa tvær nýjar eldisstöðvar. Önnur þeirra er á Spáni og hin í Portúgal. Við verðum því að huga að því að aukning á framleiðslugetu sé í takt við eftirspurn. Við tökum því eitt skref í einu í þessum efnum.“

Jordi segir það alveg ljóst að stækkun eldisstöðvarinnar muni leiða til fjölgunar starfsmanna. „Við staðfastir í áformum okkar á Íslandi og við leggjum mikið af mörkum til að koma til móts við starfsmenn okkar þar.“