þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefnt á að sigla Óðni á Hátíð hafsins

Guðjón Guðmundsson
3. mars 2019 kl. 12:00

Það er glatt á hjalla í mánaðarlegu Óðinskaffi. Mynd/HAG

Varðskipið Óðinn fagnar sextugsafmæli á næsta ári.

Varðskipið Óðinn er stærsti einstaki safngripur Sjóminjasafns Íslands en skipið er í eigu Hollvinasamtaka Óðins og í vörslu þeirra og Sjóminjasafnsins. Óðinskaffi sem er mánaðarlegur viðburður þegar fyrrverandi skipverjar, velunnarar og áhugamenn um þetta sögufræga varðskip koma saman í skraf og kaffi.

Það er létt yfir mönnum þegar þeir tínast einn af öðrum niður í messann á Óðni. Menn heilsast með virktum og slá á létta strengi enda flestir verið samferða í lífinu með einum eða öðrum hætti. Það stendur líka mikið til þennan miðvikudaginn því Sigrún Magnúsdóttir, fyrrum ráðherra og forstöðumaður Sjóminjasafns Íslands, er komin til að flytja boð frá formanni samtakanna, Guðmundi Hallvarðssyni, sem ekki átti heimangegnt. Skilaboðin eru þau að stefnt skuli að því að Óðinn sigli um sundin blá á Hátíð hafsins 2020, en þá verða 60 ár liðin frá því skipið kom til landsins.

Óðinn var smíðaður í Álaborg í Danmörku árið 1959, 910 tonn að stærð, 63 m á lengd og 10 m á breidd. Skipið er með sérstaklega styrkt stefni og byrðing fyrir siglingar í ís. Um borð eru tvær aðalvélar sem skiluðu 18 sjómílna ganghraða, ásamt ljósavélum. Öflugasta vopn skipsins var 57 mm fallbyssa, staðsett á palli fyrir framan brúna. En þekktasta og árangursríkasta vopnið í þorskastríðunum voru þó togvíraklippurnar, sem sjá má á afturdekki skipsins.

Klippti á togvíra 30 togara

Óðinn er stærsti einstaki safngripur Sjóminjasafns Íslands en skipið er í eigu Hollvinasamtaka Óðins og í vörslu þeirra og Sjóminjasafnsins. Skipið kom til landsins í ársbyrjun 1960 og tók þátt í öllum þremur þorskastríðunum, klippti á togvíra þrjátíu erlendra togara og lenti tíu sinnum í árekstrum við breskar freigátur, dráttarbáta og togara. Skipið dró nærri 200 skip og báta til lands eða í landvar vegna bilana, veiðarfæra í skrúfu eða eldsvoða um borð. Einnig dró hann flutninga- og fiskiskip 14 sinnum úr strandi. Þá bjargaði skipið áhöfnum strandaðra skipa þrisvar sinnum og tvisvar bjargaði það áhöfnum sökkvandi skipa.

Stefnt að siglingu á sextugsafmælinu

Hollvinasamtök Óðins voru stofnuð 26. október 2006 í Sjóminjasafninu í Reykjavík. Björgum Óðni, sögunnar vegna voru einkunnarorð þessara nýju samtaka, sem stofnuð voru að frumkvæði Sjómannadagsráðs að tillögu Guðmundar Hallvarðssonar, þáverandi þingmanns og formanns ráðsins. Um 200 manns eru nú í samtökunum og af stemningunni að dæma í messanum á Óðni hafði sennilega spurst út að eitthvað sérstakt stæði til í hinu mánaðarlega Óðinskaffi. Þegar menn höfðu reitt af hendi kaffigjaldið og fyllt á fantana kvaddi Sigrún Magnúsdóttir sér hljóðs:

Einstakur félagsskapur

„Það stendur mikið til á næsta ári. Við erum að gera allt hvað við getum til þess að sigla skipinu á Hátíð hafsins hér um sundin blá. Það hefðum við aldrei getað gert nema vegna ykkar framlags. Hér hafa margir félagar unnið í fleiri mánuði og jafnvel ár að koma vélunum í gang. Enn vantar herslumuninn. Nú er eitt ár í þessa stóru stund en Óðinn kom til landsins, eins og þið vitið, 1960. Það væri því gaman á sextugsafmælinu að geta siglt skipinu. Af þessari ástæðu höfum við líka hækkað kaffigjaldið. Við reynum að kroppa hvar við getum því aldrei tekst að koma neinu í verk nema blessaðir peningarnir fylgi með jafnvel þótt margir hafi unnið hér ótrúlega óeigingjarnt starf. Við teljum félagsskap eins og þennan alveg einstakan. Hér koma menn saman vikulega og vinna án þess að fá nokkuð fyrir annað en ánægjuna. En allt þetta þekkið þið betur og þið vitið líka hvers vegna ég hangi á því eins og hundur á roði að vera hérna með ykkur. Ég segi við Pál að nú sé ég að fara að hitta Óðinskallana mína og nú geti ég kysst marga í dag. Hann verður bara að sæta því karlinn,“ sagði Sigrún og uppskár mikinn hlátur.