föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stefnt að vinnslu á stórþara úti fyrir Norðurlandi

Guðjón Guðmundsson
29. júní 2020 kl. 11:20

Úr stórþara eru unnar verðmætar afurðir eins og algínöt. Aðsend mynd

Gætið skapað 100 stöðugildi

Undirbúningur að vinnslu á stórþara úti fyrir Norðurlandi miðar vel en að sögn Snæbjörns Sigurðarssonar, eins af forsprökkum verkefnisins, standa vonir til þess að vinnsla geti hafist á haustmánuðum. Stefnt er að því á fyrstu stigum að sækja 35.000 tonn af stórþara úti fyrir Tröllaskaga, þurrka hann með jarðvarma og vinna úr honum alginöt sem er eftirsótt vara í lyfja- og matvælaiðnaði. Stefnt er að fullvinnslu hér á  landi. Verkefnið kallar á fjárfestingu upp á rúma tvo milljarða króna.

Snæbjörn var áður framkvæmdastjóri Eims, samvinnuverkefnis um nýtingu jarðhita á Norðausturlandi og þar áður sem verkefnisstjóri fyrir uppbyggingu á Bakka.

„Það er nóg til af þara við landið sem enginn nýtir í dag. Og nægur er jarðhitinn sem hentar einstaklega vel fyrir þurrkun á þaranum. Það var farið í rannsóknaleiðangur síðastliðið sumar og tekin sýnishorn út af Tröllaskaga í samvinnu við Hafrannsóknastofnun. Undanfarið ár höfum við svo undirbyggt verkefnum á öllum vígstöðvum,“ segir Snæbjörn.

Umhverfismat forgangsatriði

Náið samstarf hefur verið við Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsráðuneytið auk þess samræður hafa verið við hugsanlega fjárfesta. Snæbjörn segir verkefni næstu tveggja mánaða vera að ljúka rannsóknum úti fyrir Norðaustur- og Austurlandi sem leiða eigi í ljós að nóg er af nýtilegu magni stórþara til að ýta verkefninu úr vör. Snæbjörn segir það forgangsatriði að leitt verði í ljós að þaravinnslan hafi ekki neikvæð áhrif á vistkerfið. Þarabreiðurnar eru hrygningarsvæði fyrir ákveðnar tegundir en með þeirri vinnslutækni sem verður beitt verði tryggt að þær beri ekki skaða af tekjunni.

Stórþarinn vex á klapparbotni á um 5-25 metra dýpi. Landgrunnið úti fyrir Norðurlandi er því ákjósanlegur staður til slíkrar vinnslu. Stórþarinn er ekki sleginn heldur er kambur dreginn í gegnum þaraskóginn sem grípur elstu plönturnar en skilur þær yngri eftir. Eftirtekjan er um fjórðungur af massanum sem kamburinn fer í gegnum.

Hvati frá lyfjageiranum

Norðmenn hafa stundað vinnslu á stórþara í yfir 50 ár nánast einir þjóða. Þeir vinna úr 150-200 þúsund tonnum á ári.  Þar hafa verið gerðar margar rannsóknir á áhrifum vinnslunnar á þarann og lífríkið í heild. Stórþari vex einungis í Norður-Atlantshafi og Norðmenn hafa nánast verið allsráðandi á markaði með afurðir úr tegundinni.

„Drifkrafturinn í verkefninu er lyfjageirinn. Við erum í samstarfi við erlenda aðila sem hafa sterkar tengingar inn á markaðinn. Í þaranum eru algínöt sem eru þekkt innihaldsefni í magasýrulyfjum, svo dæmi sé tekið. Alginöt er verðmæt afurð og það er mikil eftirspurn eftir þeim. Noregur hefur verið í einstakri stöðu Miðað við okkar útreikninga er veltan af vinnslu úr 35.000 tonnum af þara á milli 2,5-3 milljarðar króna á ári. Þá er einungis miðað við algínötin en auk þeirra er fjöldi annarra lífvirkra efna í þara sem kunna að skila enn verðmætari afurðum.“

Horft hefur verið til Húsavíkur með staðsetningu vinnslunnar, ekki síst í ljósi mikils jarðhita þar. Útlit er fyrir að starfseminni fylgi 80 stöðugildi í landi og 20 á sjó.