laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Stofnar í hættu vegna samningstregðu

Guðsteinn Bjarnason
24. nóvember 2019 kl. 09:00

Umdeildu deilistofnarnir í Norðaustur-Atlantshafi ræddir á Sjávarútvegsráðstefnunni

Efasemdir um lögmæti þríhliða samnings án aðkomu Íslendinga og Grænlendinga. Ráðuneytið spyr um aðkomu að fiskveiðistjórnun.

Undir lok október birtist tilkynning um að fulltrúar Evrópusambandsins, Færeyja, Grænlands, Íslands, Noregs og Rússlands hafi komist að samkomulagi um heildarveiði á makríl, kolmunna og norsk-íslenskri vorgotssíld í Norðaustur-Atlantshafi árið 2020.

Samþykkt var að veiða mætti jafnmikið og ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) segir til um, en samkvæmt henni er óhætt að veiða 922 þúsund tonn af makríl, 1.162 þúsund tonn af kolmunna og 589 þúsund tonn af síld.

Þetta samkomulag var gert á árlegum strandríkjafundi í London.

Jafnframt gerðu Evrópusambandið, Noregur og Freyjar með sér samkomulag um skiptingu veiðanna, en hvorki Íslendingar, Grænlendingar né Rússar fengu að vera með í því samkomulagi.

Þetta er sama fyrirkomulag og haft hefur verið undanfarin ár. Íslendingar hafa ár hvert furðað sig á þessari niðurstöðu.

Jóhann Sigurjónsson rakti þessa sögu á Sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu fyrr í mánuðinum.

Veiðistjórnun í uppnámi

Hann sagði veiðistjórnun á þessum þremur verðmætu uppsjávarstofnum hafa verið í algjöru uppnámi undan farin ár vegna þess að ekkert samkomulag er í gildi um veiðar á kolmunna og norsk-íslenskri síld, auk þess sem Ísland og Grænland eru útilokuð frá þríhliða samkomulagi Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja um makrílveiðar.

Hann sagðist reyndar efast um lögmæti þessa þriggja aðila samnings, og beindi spurningu þar um sérstaklega til lögfræðinganna sem sátu með honum við pallborðið.

„Uppsjávarstofnarnir eru nú í hættu,“ sagði Jóhann.

Hann sagði að vissulega hafi komið tiltölulega stórir árgangar undanfarið sem hafi bjargað málunum. Hagstæðar umhverfisaðstæður með nokkrum tiltölulega stórum árgöngum hafi bjargað málum þrátt fyrir þennan skort á samvinnu undanfarin ár.

„En horfurnar eru ekki góðar ef þetta heldur svona áfram.“

Óskynsamleg nálgun

Frummælendur á málstofu um deilistofnana í Norðaustur-Atlantshafi, eða „deilustofnana“ eins og þeir hafa verið nefndir vegna þessa þráláta ágreinings, voru lögfræðiningarnir Erik J. Molenaar frá Hafréttarstofnun Hollands og Helgi Áss Grétarsson, ásamt þeim Damiel Derichs frá vottunarsamtökunum MSC og Kristinn Hjálmarsson frá Iceland Sustainable Fisheries.

Meðal áheyrenda í sal voru fulltrúar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, þar á meðal Sigurgeir Þorgeirsson sem að loknum framsögum ítrekaði spurningu Jóhanns um lögmæti þriggja aðila samkomulagsins.

„Við tökum á hverju ári þátt í fundum strandríkjanna þar sem menn ráða ráðum sínum, og eitt af því sem verið hefur til umræðu á þessum fundum eru tilraunir til að ná samkomulagi um fiskveiðistjórnun og aflareglu,“ sagði Sigurgeir.

Á þessum fundum hafi Íslendingar jafnan lagt áherslu á að öll strandríkin ættu að taka þátt í ákvörðunartöku um fiskveiðistjórnun og aflareglu. Rökin eru þau að öll strandríkin, sem eiga aðild að veiðunum, hljóti að bera ábyrgð á stjórnun stofnanna.

„Okkur hefur mistekist að ná samkomulagi um skiptingu þeirra en það ætti ekki að koma í veg fyrir að við öll tökum þátt í að móta skynsamlega veiðistjórnunarstefnu,“ sagði Sigurgeir. „Að vísu er ég sammála því að slík stefna virkar ekki almennilega nema við náum samkomulagi um skiptingu, en engu að síðar fannst mér þetta afar óskynsamleg nálgun.“

Erfitt að sanna ásetningsleysi

Hann beindi spurningu sinni til lögfræðinganna tveggja.

Báðir voru þeir Molenaar og Helgi Áss sammála um að þriggja aðila samningurinn brjóti í sjálfu sér ekki í bága við neinar alþjóðareglur.

Þegar kæmi að því hvort ríki sem ekki á aðild að slíkum samningi geti engu að síður tekið þátt í ákvarðanatöku á grundvelli hans, þá sagði Molenaar að það yrði afskaplega erfitt samkvæmt alþjóðalögum.

„Venjulega þarf að vera aðili að samningi til að geta tekið þátt í ákvörðunartöku,“

Helgi Áss tók í sama streng, en hvað varði lögmæti þriggja aðila samningsins þá sé það spurning um hvort samningaviðræðurnar hafi farið fram í góðri trú allra sem að borðinu komu.

„Ef þau uppfylla það skilyrði þá er framferði Evrópusambandsins, Færeyja og Noregs ólöglegt. Það er mín skoðun.“

Á hinn bóginn væri mjög erfitt að sanna þetta, að komið hafi verið að borðinu í þeim einlæga ásetningi að ná samkomulagi.